• þri. 21. sep. 2010
  • Landslið

Átta landsleikir á einni viku

Hópurinn hjá U19 kvenna í Búlgaríu
Hopurinn-i-Bulgariu

Gærdagurinn var upphafið af mikilli landsleikjahrinu hjá yngri landsliðum Íslands en á einni viku, 20 - 27. september, verða spilaðir átta landsleikir hjá þremur yngri landsliðum Íslands.  Þetta eru U17 karla og kvenna og U19 karla sem verða í eldlínunni í vikunni.

Fimm þessara leikja fara fram hér á landi.  Strákarnir í U19 léku í gær fyrri vináttulandsleik sinn gegn Norður Írum í Sandgerði en sá síðari verður á Fylkisvelli á miðvikudaginn kl. 16:00.  Þessir leikir eru undirbúningur fyrir þátttöku liðsins í undankeppni EM en riðillinn verður leikin í Wales í október. 

Þá hefst á morgun, miðvikudag, keppni í undankeppni EM U17 karla en riðill Íslands er leikinn hér á landi.  Íslendingar hefja leik á morgun þegar þeir taka á móti Tékkum á Laugardalsvelli.  Einnig leika í riðlinum Armenar og Tyrkir.

Þá hóf lið U17 kvenna leik í gær í undankeppni EM með stórum sigri á Litháen en leikið er í Búlgaríu.  Liðið leikur gegn heimastúlkum á morgun, miðvikudag og mæta svo Ítalíu á laugardaginn.

Stelpurnar í U19 léku hinsvegar í síðustu viku þegar þær urðu efstar í sínum riðli í undankeppni EM en þær léku einnig í Búlgaríu.  Þá styttist einnig í umspilsleiki U21 karla gegn Skotum en leikið verður á Laugardalsvelli 7. október og í Edinborg 11. október.  Síðast en ekki síst er svo leikurinn við Portúgal hjá A landsliði karla sem fer fram þriðjudaginn 12. október en miðasala á þann leik hefur farið ákaflega vel af stað.

Það er sem sagt mikið um að vera þessa dagana og næstu daga hjá okkar landsliðum og fjölmörg tækifæri til að sjá okkar besta knattspyrnufólk, á öllum aldri, í baráttunni fyrir Íslands hönd.

EM U17 karla

EM U17 kvenna

EM U19 kvenna

EM U19 karla - Vináttulandsleikir U19 karla