• þri. 21. sep. 2010
  • Leyfiskerfi

Árleg úttekt á leyfisstjórn KSÍ

Evert Larsson frá SGS
Leyfiskerfi-SGS-2010

Í vikunni var í heimsókn hjá KSÍ Evert Larsson, fulltrúi SGS, sem er alþjóðlegt matsfyrirtæki sem UEFA hefur ráðið til að gera gæðaúttekt á leyfiskerfi í öllum aðildarlöndum sambandsins (UEFA Licensing Audit).  Fulltrúi SGS skoðaði vel alla uppbyggingu leyfiskerfis KSÍ, verkferla, vinnulag og fleira sem snýr að stjórnun leyfiskerfisins.  Þessi úttekt SGS er árviss viðburður og síðustu tvö ár var engin athugasemd gerð við uppbyggingu leyfiskerfis KSÍ.  Alls þarf KSÍ að uppfylla 40 forsendur í gæðahandbók leyfiskerfisins, sem UEFA gefur út. 

Athugasemdirnar frá vottunarfyrirtækinu SGS geta verið tvenns konar - Major eða minor, þ.e. meiriháttar eða minniháttar.  Meiriháttar athugasemd þýðir að viðkomandi knattspyrnusamband á það á hættu að missa leyfið til að stjórna leyfiskerfinu og gefa út þátttökuleyfi, og þá myndi UEFA taka yfir leyfisstjórn í viðkomandi landi.  Minniháttar athugasemd þarf að laga innan ákveðinna tímamarka.  Ef það er ekki gert verður hún að meiriháttar athugasemd.  KSÍ hefur aldrei fengið meiriháttar athugasemd.

Í úttekt SGS í september 2010 kom ein minniháttar athugasemd fram (Minor).  Gera þurfti lagfæringu á yfirlýsingu þeirra einstaklinga sem koma að leyfiskerfinu fyrir hönd KSÍ um trúnað og hlutleysi.  Bæta þurfti við tilvísun í siðareglur KSÍ.  Nauðsynlegar úrbætur þarf að gera eigi síðar en 30. september.

Einnig komu fram tvær ábendingar/tillögur um smávægilegar lagfæringar á skjölum, án þess þó að um athugasemd væri að ræða.  Fulltrúi SGS lýsti að öðru leyti yfir mikilli ánægju með uppsetningu leyfiskerfis KSÍ, skipulag þess og vinnuferla.  SGS staðfesti því gæðamat á leyfiskerfi KSÍ.