U19 kvenna - Sigur á Úkraínu og efsta sætið í höfn
Stelpurnar í U19 kvenna rifu sig upp við fyrsta hanagal í morgun því leikið var við Úkraínu í undankeppni EM. Þetta var síðasti leikurinn í riðlinum en báðar þessar þjóðir höfðu fyrir leikinn tryggt sér sæti í milliriðlum. Riðillinn var leikinn í Búlgaríu og hófst leikurinn kl. 8:30 að íslenskum tíma.
Stelpurnar voru sterkari aðilinn frá byrjun og leiddu í leikhléi með einu marki. Þrjú bættust svo við í þeim síðari og öruggur sigur staðreynd. Liðið fékk, aukinheldur, ekki á sig mark í riðlakeppninni. Mörkin í dag skoruðu: Berglind Björg Þorvaldsdóttir 2, Arna Sif Ásgrímsdóttir og Katrín Gylfadóttir.
Í hinum leik riðilsins sigruðu Ísrael heimastúlkur í Búlgaríu, 4 - 1.
Vel hefur farið um íslenska hópinn og aðstæður hinar bestu á staðnum. Tæplega 30 stiga hiti var í dag á meðan leiknum stóð. Hér að neðan má sjá myndir frá Búlgaríu. Neðsta myndir er frá hóteli íslenska liðsins en þess má geta að U17 er á leiðinni á sama stað í Búlgaríu til að leika í undankeppni EM og mun gista á sama hóteli.