• þri. 14. sep. 2010
  • Leyfiskerfi

Engum verið synjað um þátttökuleyfi á Íslandi

UEFA
uefa_merki

Ísland er eitt þeirra 9 landa innan UEFA sem aldrei hefur synjað félagi um þátttökuleyfi og jafnframt hafa allar leyfisumsóknir verið afgreiddar á borði leyfisráðs, þannig að aldrei hefur komið til þess að kalla þyrfti saman leyfisdóm. 

Öll félög sem leika í UEFA-mótum verða að undirgangast leyfiskerfi í sínum löndum og þurfa að standast þær kröfur sem þar eru gerðar.  Misjafnt er þó hvernig leyfiskerfin eru uppbyggð.  Á Íslandi nær leyfiskerfið til efstu tveggja deilda Íslandsmóts karla og er sama uppsetning í 24 öðrum löndum innan UEFA, þar á meðal á Norðurlöndunum, í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Írlandi, Skotlandi og Rússlandi.  Í 19 löndum nær leyfiskerfið til allra félaga í efstu deild, en nær ekki til félaga utan efstu deildar, og á þetta t.d. við um lönd eins og Norður-Írland, Grikkland, Danmörku, Rúmeníu og Lúxemborg.  Í níu löndum er ekkert leyfiskerfi innanlands, þó til standi að taka upp kerfi í fimm þeirra, þar á meðal í Englandi og Tyrklandi.

Í sumum löndum sækja öll félög í efstu deild um UEFA-leyfi, en eru þá ekki að sækja um þátttökuleyfi í efstu deild viðkomandi lands eins og hér á Íslandi.  Þannig getur félag í tilteknu landi, sem hafði ekki unnið sér þátttökurétt í UEFA-mótum, sótt um UEFA-leyfi og verið synjað um leyfið, en þrátt fyrir það getur félagið leikið í efstu deildinni í sínu landi.

Nokkrir molar um leyfiskerfið

  • 611 félög í Evrópu undirgengust leyfiskerfi í sínum löndum (83% af öllum liðum í efstu deildum í Evrópu).
  • 488 félög fengu leyfi (80%, m.v. 83% tímabilið 2009/2010)
  • 5 félög sem höfðu unnið sér íþróttalegan rétt til að leika í Evrópukeppni fengu ekki leyfi (1 frá Englandi, Spáni, Írlandi, Kasakstan og Litháen).
  • 1 félag utan efstu deildar vann sér íþróttalegan rétt til að leika í Evrópukeppni, stóðst kröfur leyfiskerfisins og fékk þátttökuleyfi (í Sviss).
  • 26 leyfisveitendur synjuðu a.m.k. 1 umsókn um þátttökuleyfi eftir að viðkomandi leyfisumsækjandi hafði farið í gegnum bæði stigin, þ.e. leyfisráð og leyfisdóm.
  • 21 leyfisveitandi samþykkti allar leyfisumsóknir án þess að áfrýjað væri til leyfisdóms.
  • 6 leyfisveitendur samþykktu allar leyfisumsóknir, hluta þeirra eftir áfrýjun til leyfisdóms.
  • Eftir 7 leyfisferli (2003-2009) höfðu 9 leyfisveitendur ekki synjað einni einustu umsókn um þátttökuleyfi (Færeyjar, Þýskaland, Ísland, Liechtenstein, Lúxemborg, Holland, Noregur, San Marínó og Sviss).
  • 12 leyfisveitendur höfðu aldrei þurft að kalla saman leyfisdóm (Eistland, Færeyjar, Ísland, Lettland, Liechtenstein, Holland, Noregur, San Marínó, Skotland, Svíþjóð og Tyrkland).
  • Algengasta ástæðan fyrir synjun á umsóknum um þátttökuleyfi í gegnum árin er vegna fjárhagslegra þátta (áritun endurskoðanda á ársreikning vantar, vanskil vegna félagaskipta leikmanna, vanskil vegna launa og launatengdra gjalda).
  • Þar á eftir koma synjanir þar sem áhorfendaaðstaða uppfyllir ekki setta staðla og vegna þess að þjálfarar uppfylla ekki menntunarkröfur.