• mán. 13. sep. 2010
  • Fræðsla

Spilum með hjartanu

Hjartaheill og KSÍ
hjartaheill-og-ksi

KSÍ og Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, hafa ráðist í samstarf.  Dagana 21.-28. september nk. verður landssöfnun í formi merkjasölu þar sem Hjartaheill og KSÍ vonast eftir góðri þátttöku knattspyrnufélaga á landsvísu.  Gengið verður úr húsi í hús og selt merki til styrktar Hjartaheillum.  

Ágóði af merkjasölunni verður notaður til eflingar styrkrarsjóðs samtakanna til að geta stutt tækjakaup á spítalana og um leið fjölskyldur hjartasjúklinga sem þurfa jafnvel að dvelja frá heimili sínu þegar hjartasjúklingar eru í aðgerð heiman frá sér hérlendis eða jafnvel erlendis.

Merkið mun kosta kr. 1.000 og eru 30% sölulaun til knattspyrnufélaganna sem taka þátt. 

Hjartasjúkdómurinn er lang stærsti sjúkdómurinn á Íslandi sem leggur fólk á velli á öllum aldri.  Annar hver Íslendingur deyr úr hjarta-og æðasjúkdóm.

Hjartaheill mun veita þeim félögum sem eru söluhæst sérstök verðlaun eða Hjartabikarinn fyrir hæstu sölutölur m.v. félagssvæði og ennfremur fyrir mest seldra merkja.

Hægt er að skrá þátttöku hjá KSÍ (ksi@ksi.is) eða Hjartaheillum.

Spilum með hjartanu!


Hjartaheill

HjartaheillLandssamtök hjartasjúklinga voru stofnuð 8. október 1983 en nafni þeirra var breytt í HJARTAHEILL árið 2004. Á þessu ári eru samtökin 27 ára og er sérstakt kynningar- og fræðsluátak í gangi auk merkjasölu dagana 21. til 28. september 2010. 

Hjartaheill starfa í 11 deildum um allt land. Þar af er ein deildin Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, sem starfar á landsvísu en hefur sínar aðalstöðvar hjá Hjartaheillum að Síðumúla 6 í Reykjavík. Deildirnar hafa sjálfstæðan fjárhag en hluti félagsgjalda, ágóði vegna merkjasölu og annarrar fjáröflunarstarfsemi rennur til deildanna.

Meginmarkmið samtakanna er að standa vörð um hagsmuni hjartasjúklinga. Stuðla að fræðslu, forvörnum og tækjakaupum til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva um allt land. Samtökin hafa fjármagnað þessi verkefni með sölu á merkjum, jólakortasölu, framlögum frá fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum og arfgjafir. Þá reka samtökin einnig minningar- og styrktarsjóð en í hann renna tekjur af sölu minningarkorta.

Rekstur Hjartaheilla

Hjartaheill á og rekur ásamt Rauða krossi Íslands 3ja herbergja íbúð að Lokastíg 16. Íbúðina geta hjartasjúklingar og aðstandendur þeirra utan af landi nýtt sér. Hjartadeild Landspítalans við Hringbraut sér um úthlutun íbúðarinnar.

Til skrifstofu samtakanna leitar fjöldi hjartasjúklinga og aðstandendur þeirra. Þar er veitt fræðsla í samvinnu við félagsráðgjafa, hjartalækna og hjúkrunarfólk. Haldnir eru fræðslufundir um málefni hjartasjúklinga og í blaðinu okkar Velferð sem gefið er út 3 til 4 sinnum á ári er fjallað um það nýjasta í hjartalækningum ásamt fróðlegu efni fyrir hjartasjúklinga. Á skrifstofu samtakanna starfar fólk sem þekkir hjartasjúkdóma af eigin raun. 

Af upptalningu þessari má sjá að Hjartaheill sinna margvíslegum verkefnum sem lúta að hagsmunum og þjónustu við hjartasjúklinga og í raun landsmenn alla með fræðslu sinni svo og sýnilegu og virku forvarnarstarfi. Það verður vart gert með skilvirkari og ódýrari hætti en þar sem tekst að virkja sjálfboðaliðastarf fjölmargra einstaklinga.

Blóðfitumælingar

Samtökin hafa frá því á árinu 2000 staðið fyrir blóðfitu- og blóðþrýstingsmælingum í samvinnu við deildirnar úti á landi. Hefur þetta framtak mælst afar vel fyrir en mælingar hafa verið gerðar á yfir 70 stöðum og meira en 10000 einstaklingar notið slíkrar þjónustu.

Ljóst er að þessar aðgerðir hafa bjargað mannslífum og með hverjum einstaklingi sem forðað er frá sjúkrahúsinnlögn og kemst undir læknishendur tímalega, sparast gríðarlegir fjármuni.

Við mælingarnar er kappkostað að hafa samstarf við lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara  eða meinatækna af nærliggjandi sjúkrahúsi eða heilsugæslustöð til að tryggja að þeir einstaklingar sem greinast með of há gildi komi aftur til framhaldsmeðferðar. 

Útgáfumál

Eitt af stærri verkefnum samtakanna í útgáfumálum er útgáfa Hjartabókarinnar. Fyrir rúmum sex árum síðan færðu samtökin hjartadeildinni á Landspítala háskólasjúkrahúsi fyrstu 1000 bækurnar. Nú er komin út þriðja útgáfa af bókinni og vinna hafin að fjórðu útgáfu.

Í bókinni er að finna allar helstu upplýsingar um starfsemi hjartans og hvernig sjúklingur á að haga sér ef hann fær hjartakveisu eða þarf að gangast undir aðgerð af einhverju tagi.

Hjúkrunarfólk og læknar skrá athugasemdir sínar í bókina en sjúklingur sýnir bókina þegar hann kemur til fundar við lækna eða hjúkrunarfólk í framhaldsrannsókn eða endurhæfingu.  Fyrirhugað er að halda þessu samstarfi áfram og séð verður til þess að bókin sé alltaf tiltæk, henni verði við haldið og þar komi fram allar nýjustu og bestu upplýsingar sem til eru hverju sinni.

Fræðslubæklingarnir sem Hjartaheill gefur út eru notaðir á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og HL stöðvum um land allt. Þykja bæklingar þessir vel gerðir og eru samtökin hvött til frekari aðgerða á þessu sviði. Í þessu sambandi má nefna bæklingana „Hjartasjúkdómar, varnir, lækning, endurhæfing“ og „Eru ljón í veginum?“ Sjúklingar sem eru á biðlista eftir hjartaþræðingu eða aðgerð fá þessa bæklinga til fróðleiks.

Samtökin gáfu út fræðslumyndina „GRETTI-þroskasaga hjartasjúklings“ í samvinnu við AstraZeneca til að auka skilning fólks á eðli hjarta- og æðasjúkdóma. Fræðslumyndin lýsir dæmigerðum, mannlegum viðbrögðum við hjarta- og æðasjúkdómum og fjallar um nauðsyn þess að takast á við aðstæður á raunsæjan og hvetjandi hátt. Sérfræðingar í hjartasjúkdómum og heimilislækningum veittu ráðgjöf við gerð myndarinnar. Hún sýnir fram á ávinninginn sem fylgir því að taka upp holla lífshætti og nýta tækifærin sem framfarir á sviði lyfja-, læknisfræði og endurhæfingar á síðustu árum hafa veitt hjartasjúklingum.

Hjartaheill gefur út tímaritið Velferð. Þar er að finna margvíslegar fréttir, fróðleik og frásagnir af því sem efst er á baugi varðandi hjartasjúkdóma. Blaðið er sent til allra félagsmanna samtakanna, heilbrigðisstofnana, liggur frami á heilsugæslustöðvum og kemur út þrisvar til fjórum sinnum á ári.

Styrktarsjóðurinn

Hjartaheill hefur gefið tæki til hjartalækninga á sjúkrastofnanir um land allt, einnig í samvinnu við önnur líknarfélög. Þá höfðu samtökin forgöngu um stofnun hinna vinsælu Hjarta- og lungnastöðva í Reykjavík og á Akureyri og nú síðast í Vestmannaeyjum. Síðustu árin höfum við einnig beint kröftum okkar að því að koma á fót endurhæfingaraðstöðu víða um land og hafa þá samtökin og heimamenn lagt saman um kaup á nauðsynlegum búnaði. 

Ört vaxandi eftirspurn er eftir aðstoð, bæði fjárhagslegri og félagslegri, frá samtökunum. Mörgum skjólstæðingum Hjartaheilla finnst auðveldara að leita til sinna eigin samtaka en að snúa sér til félagsmálayfirvalda þegar tímabundnir erfiðleikar steðja að. Reynt er að verða við óskum þessum eftir fremsta megni en geta til að veita fjárhagslegan stuðning er takmörkuð.