• mán. 13. sep. 2010
  • Leyfiskerfi

Fjallað um fjárhagslega háttvísi

UEFA
uefa_merki

Ómar Smárason, leyfisstjóri KSÍ, og Lúðvík Georgsson, formaður leyfisráðs og stjórnarmaður KSÍ, sóttu á dögunum árlega UEFA-ráðstefnu um leyfismál sem haldin var í Genf í Sviss.  Á ráðstefnunni, sem var sótt af fulltrúum allra aðildarþjóða UEFA, var kynnt ný leyfisreglugerð UEFA sem nær nú einnig til reglugerðar um fjárhagslega háttvísi (Financial Fair Play). 

Farið var yfir helstu breytingar á leyfisreglugerðinni milli ára og fjallað ítarlega um þann kafla sem snýr að fjárhagslegri háttvísi, en í þeim kafla er að finna fjárhagslegar kröfur sem UEFA leggur á félög sem leika í Evrópukeppnum. 

Að stærstum hluta nær reglugerð um fjárhagslega háttvísi til stærri félaga í álfunni, t.a.m. eru félög með veltu undir 5 milljónum evra undanþegin veigamiklum kafla sem tekur á því að félög séu ekki rekin með miklu tapi ár eftir ár (Break-Even Rule).  Í reglugerð um fjárhagslega háttvísi er einnig tekið mjög hart á vanskilum vegna félagaskipta og vanskilum vegna launa og launatengdra gjalda.

Á meðal nýjunga í leyfisreglugerðinni (athugið að þessar breytingar eru til skoðunar í nýrri leyfisreglugerð KSÍ og hafa ekki tekið gildi):

  • Skerpt á orðalagi og skilgreiningum í nokkrum greinum, t.d. skilgreiningu á leyfisumsækjanda og samþykktum í leyfisumsókn.
  • Bætt við skyldu í uppeldisáætlunum ungra leikmanna að þar sé gert ráð fyrir fræðslu um lyfjamál og forvarnir gegn lyfjamisnotkun.
  • Leyfisumsækjendur verða nú að skipa tengilið við stuningsmenn, sem vinnur m.a. að því að efla tengsl félaga og stuðningsmanna og að styrkja gæslu og öryggisþætti sem snúa að stuðningsmönnum af öllum toga.
  • Skerpt á ákvæðum um þjálfara og ráðningar þeirra.  Grein um aðstoðarþjálfara meistaraflokks er t.d. gerð að A-forsendu.
  • Skerpt á ákvæðum um engin vanskil vegna félagaskipta og engin vanskil vegna launa og launatengdra gjalda.