Tvær hörkuviðureignir í dag og í kvöld
Tvö karlalandslið Íslands, A landsliðið og U21 landsliðið, verða í eldlínunni í dag og í kvöld. Strákarnir í U21 mæta Tékkum kl. 15:00 í lokaleik liðsins í undankeppni EM 2011. A landsliðið leikur svo við Dani í undankeppni EM 2012 og hefst sá leikur kl. 18:15. Báðir þessir leikir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Strákarnir í U21 eiga ennþá möguleika á því að tryggja sér sæti í umspili fyrir úrslitakeppni EM 2011 sem fram fer í Danmörku. Tveggja marka sigur á Tékkum tryggir þeim efsta sæti riðilsins og jafntefli gerir það að verkum að þeir verða ein af fjórum þjóðum með bestan árangur í öðru sæti. Ef íslenska liðið tapar þarf það að treysta á hagstæð úrslit leikja í öðrum riðlum en allir leikirnir eru leiknir á sama tíma.
A landsliðið leikur sinn annan leik í undankeppninni en liðið beið lægri hlut gegn Noregi á Laugardalsvelli síðastliðinn föstudag. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi aldrei unnið Dani þá eru strákarnir hvergi bangnir og ætla að leggja allt í sölurnar á Parken í kvöld.
Eins og áður sagði verða báðir leikirnir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending fyrir U21 leikinn hefst kl. 14:45 en útsending fyrir leikinn á Parken hefst kl. 17:45.