KSÍ VI þjálfaranámskeið í Englandi í janúar 2011
KSÍ heldur VI. stigs þjálfaranámskeið í Wokefield Park á Englandi dagana 9.-16. janúar 2011. Reiknað er með að fleiri þjálfarar sæki um námskeiðið en hægt er að taka inn. Umsækjendur þurfa því að fylla út umsóknareyðublað, og verða að hafa lokið KSÍ V þjálfaranámskeiði eða verða að taka KSÍ V þjálfaranámskeið sem haldið verður í nóvember á þessu ári.
Hér að neðan er umsókn að KSÍ VI þjálfaranámskeiðinu sem fer fram í Wokefield Park, Englandi 9.-16. janúar næstkomandi. KSÍ vekur athygli á því að síðasti dagur til að skila inn umsókninni er 13. október næstkomandi, en auðvitað má skila umsóknum fyrr.
Líklegt námskeiðsgjald er 250.000 krónur. Þegar nákvæmara verð liggur fyrir, verður það gefið út. Hægt verður að skipta greiðslunni eitthvað niður eftir nánara samkomulagi við Pálma Jónsson fjármálastjóra KSÍ.
Fræðslunefnd KSÍ stefnir á að taka inn 26 þjálfara á námskeiðið, eftir fjölda og hæfni umsækjenda.
Á námskeiðinu er 100% mætingarskylda og það er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur þurfa að taka þátt í verklegum tímum.
KSÍ VI þjálfaranámskeiðið er hluti af UEFA A þjálfaragráðu. Flesta dagana verður námskeiðið haldið í Wokefield Park. Einum degi verður varið til heimsóknar í klúbb í ensku úrvalsdeildinni eða Championship deildinni þar sem skoðuð verður knattspyrnuakademía. Einum degi verður varið í leikgreiningu á leik í ensku úrvalsdeildinni.
Á námskeiðinu kenna kennarar frá KSÍ og erlendir fyrirlesarar, væntanlega frá enska knattspyrnusambandinu. Hluti námskeiðsins fer fram á ensku.
Skriflegt próf verður haldið 2-3 vikum eftir KSÍ VI námskeiðið. Prófað verður úr námsefni KSÍ V og VI.
Nánari upplýsingar um Wokefield Park má sjá hér að neðan.
Dagskrá námskeiðsins er í vinnslu en þó er óhætt að upplýsa það að meðal fyrirlesara á námskeiðinu verða kennarar af UEFA Pro þjálfaranámskeiðinu í Englandi, svo sem Howard Wilkinson og John Peacock, ásamt þeim Ólafi Helga Kristjánssyni, þjálfara Breiðabliks, Gunnari Guðmundssyni, þjálfara U17 ára liðs karla og Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, þjálfara A-landsliðs kvenna.
Farið verður á einn af eftirtöldum leikjum í ensku úrvalsdeildinni: Chelsea-Blackburn, Tottenham-Man. United eða West Ham-Arsenal. Einnig verður unglingaakademía félags í London heimsótt.
Nánari dagskrá á námskeiðinu verður gefin út þegar nær dregur.
Allar nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Dagur Sveinn Dagbjartsson (dagur@ksi.is) og Sigurður Ragnar Eyjólfsson (siggi@ksi.is).