• mið. 25. ágú. 2010
  • Landslið

Öruggur sigur í Eistlandi

Byrjunarlið Íslands gegn Eistlandi í undankeppni HM 17. september 2009
Ísland-Eistland

Stelpurnar í íslenska landsliðinu léku í dag lokaleik sinn í undankeppninni fyrir HM 2011 sem fer fram í Þýskalandi.  Íslenska liðið vann öruggan sigur með fimm mörkum gegn engu eftir að hafa leitt með tveimur mörkum í leikhléi.

Íslenska liðið var sterkara allan leikinn og fékk fleiri tækifæri til þess að bæta við mörkum, áttu m.a.skot í stöng og þverslá á marki heimastúlkna.  Engu að síður voru mikil batamerki á liði Eistlands frá því að þær léku hér á Laugardalsvelli, liðið mun betur skipulagt og baráttuglaðara.

Það var Margrét Lára Viðarsdóttir sem kom íslenska liðinu á bragðið á 9. mínútu og var aftur á ferðinni sjö mínútum síðar.  Bæði mörkin komu eftir góðar sóknir og fyrirgjafir frá köntunum.  Í fyrra markinu var það Ólína sem gaf fyrir frá vinstri og í því síðara var það Rakel sem sendi fyrir eftir góðan undirbúning frá Dóru Maríu.

Stelpurnar héldu áfram að sækja eftir að rúmenski dómarinn flautaði til seinni hálfleiks.  Þriðja markið gerði Sara Björk með góðum skalla í stöng og inn eftir hornspyrnu frá Eddu.  Edda sjálf var svo á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar hún skoraði með góðu langskoti sem fór af varnarmanni og í netið.  Fimmta og síðasta mark leiksins kom svo á 86. mínútu þegar að Sara Björk skoraði sitt annað mark eftir góðan sprett Fanndísar upp hægri kantinn.  Berglind Björg framlengdi sendinguna og Sara lagði boltann örugglega í netið.

Góður endir á undakeppninni hjá íslenska liðinu og annað sæti riðilsins staðreynd.  Aðeins Frakkar reyndust einhver hindrun fyrir íslensku stelpurnar að þessu sinni en næsta keppni er undankeppni EM og þar ætla stelpurnar sér örugglega stóra hluti.  Er þar verið að ræða um EM 2013 en úrslitakeppnin fer annað hvort fram í Hollandi eða Svíþjóð en ákvörðun um það verður tekin á fundi framkvæmdastjórnar UEFA 4. - 5. október.