• mið. 11. ágú. 2010
  • Landslið

Draumkenndur dagur í Krikanum

Úr leik Íslands og Þýskalands - Gylfi Sigurðsson með knöttinn
Isl-Thys_U21_2010_002

Það var engu líkara en vel á fjórða þúsund áhorfendur leiksins væri að dreyma þegar þeir litu á markatöfluna í Kaplakrika í dag að loknum leik U21 landsliða Íslands og Þýskalands.  Strákarnir okkar unnu þar ótrúlegan en verðskuldaðan 4-1 sigur á ríkjandi Evrópumeisturunum og slógu þá þar með út úr keppninni. 

Íslenska liðið byrjaði betur í dag og náði forystu á 5. mínútu með marki frá Birki Bjarnasyni, sem lagði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf frá hægri.  Þjóðverjar komust smám saman betur inn í leikinn og höfðu öll völd um skeið í fyrri hálfleik, án þess að ná að skora. 

Gestirnir hafa sjálfsagt haldið að björninn væri unninn þegar þeir jöfnuðu strax í upphafi síðari hálfleiks, á 49. mínútu, en svo var aldeilis ekki.  Gylfi Sigurðsson svaraði strax á 53. mínútu fyrir Ísland með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu og aðeins mínútu síðar vippaði Kolbeinn Sigþórsson boltanum yfir þýska markvörðinn, frábært mark. 

Jafnræði var með liðunum lengst af síðari hálfleik og bæði lið fengu færi.  Haraldur Björnsson í markinu varði vel í tvígang áður en Alfreð Finnbogason, sem kom inn á sem varamaður, innsiglaði sigurinn þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir þýsku vörnina, lék á markvörð Þjóðverjanna og renndi boltanum í autt markið.

Stórkostlegur sigur íslensku strákanna fyrir framan pakkfullan Kaplakrikavöll.  Íslenska liðið er nú öruggt með a.m.k. 2. sæti riðilsins, sem kemur liðinu í umspil um sæti í lokakeppninni.  Tékkar hafa unnið alla leiki sína í keppninni hingað til og fá þeir Þjóðverja í heimsókn í næstu umferð.  Nái Tékkar ekki að sigra Þjóðverja mætast Ísland og Tékkland í hreinum úrslitaleik um sigur í riðlinum í lokaumferðinni. Lokakeppnin fer fram í Danmörku 11. til 25. júní 2011.

Það er ljóst að framtíð íslenskrar knattspyrnu er afar björt.

Áfram Ísland, alltaf, alls staðar!