Miðasala hafin á Ísland - Frakkland
Íslensku stelpurnar mæta þeim frönsku í undankeppni fyrir HM 2011 en leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum, laugardaginn 21. ágúst kl. 16:00. Þetta er síðasti heimaleikur Íslands í undankeppninni og sá mikilvægasti til þessa því góður sigur fleytir íslenska liðinu í efsta sæti riðilsins.
Þegar þessar þjóðir mættust á síðasta ári í Frakklandi í sömu undankeppni, höfðu þær frönsku betur, 2 – 0. Nú er komið að skuldadögum hjá okkar stelpum en þá þurfa þær á öllum mögulegum stuðningi á að halda.
Þennan laugardag, 21. ágúst, er haldið upp á Menningarnótt í Reykjavíkurborg og því mikið um að vera. Það er því upplagt fyrir alla fjölskylduna að heimsækja dalinn góða þennan dag og styðja stelpurnar okkar gegn hinu sterka franska liði.
Miðaverði er stillt í hóf. 1.000 krónur kostar fyrir fullorðna en frítt er inn fyrir börn yngri en 16 ára.