Tvöfaldur 7:0 sigur hjá unglingalandsliðum kvenna
Bæði U17 og U19 landslið kvenna unnu sína leiki gegn Færeyjum 7:0 í dag í Fuglafirði í Færeyjum. Um vináttuleiki er að ræða sem eru undirbúningur undir leiki liðanna í Evrópukeppni sem fram fer í Búlgaríu í september.
Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari U19 landsliðs kvenna stillti upp nokkuð breyttu liði frá því í gær. Hópurinn sýndi hversu góð breiddin er og komst yfir strax á 12. mínútu en þar var á ferðinni Berglind Björg Þorvaldsdóttir með markið. Sara Hrund Helgadóttir og Telma Ólafsdóttir bættu svo við mörkum fyrir hlé þrátt fyrir mikla baráttu færeysku stelpnanna. Íslenska liðið átti á tímum erfitt með að hemja boltann á gervigrasinu í Fuglafirði en stelpurnar voru samt duglegar að skapa sér færi og liðið var vel að því komið að vera 3:0 yfir í hálfleik. Berglind bætti svo við öðru marki sínu á 63. mínútu og tveimur mínútum síðar fullkomnaði hún þrennuna. Sigrún Ella Einarsdóttir skoraði svo loks þegar um korter var eftir en hún hafði komið sér í fjölmörg færi í leiknum fram að því svo að markið var vel þegið. Fjolla Shala kórónaði svo góðan sigur Íslands með marki á lokamínútunum og 7:0 sigur staðreynd. Íslenska liðið spilaði boltanum betur sín á milli í síðari hálfleiknum. Mikill kraftur var í leikmönnum og ljóst að þeir eru í góðu leikformi. Berglind skoraði alls 7 mörk á tveimur dögum sem eru svo sannarlega góðar fréttir fyrir landsliðið ásamt því að vörn og markmenn héldu markinu hreinu.
Stelpurnar í U17 liðinu voru nokkra stund að finna taktinn gegn Færeyingum enda að leika nýtt leikkerfi í dag, 3:5:2. Færeysku stelpurnar byrjuðu leikinn líka af mikilli baráttu og reyndu að pressa á íslenska liðið sem varðist þó ágætlega. Það var svo eftir hálftíma leik að Rakel Lind Ragnarsdóttir braut ísinn og skoraði fyrsta markið. Elín Metta Jenssen bætti svo við öðru áður en flautað var til hálfleiks. Þorlákur Árnason þjálfari fór vel yfir áherslur sínar í hálfleik og voru stelpurnar fljótar að bæta við mörkum í síðari hálfleiknum. Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði snemma en þá tók Elín Metta sig til og bætti við marki ásamt því að Hugrún Elvarsdóttir fyrirliði setti boltann í netið. Elín Metta var ekki hætt því áður en yfir lauk skoraði hún tvö mörk í viðbót og því alls sjö mörk í tveimur leikjum líkt og Berglind í U19 liðinu. Greinilegt er að Ísland á mjög efnilega framherja um þessar mundir. U17 liðið lék vel í heildina, þó mun betur í síðari hálfleiknum en þeim fyrri. Úrslitin voru góð, 7:0 og björt framtíð þessara stúlkna á fótboltavellinum blasir við.