• mán. 26. júl. 2010
  • Landslið

Góðir sigrar hjá U17 og U19 kvenna á færeyskum stöllum sínum

U17 kvenna sem tekur þátt á Norðurlandamótinu í Danmörku
2010_juli_danmorkU17-009

Íslensku unglingalandsliðin í knattspyrnu kvenna unnu í dag góða sigra á stöllum sínum í Færeyjum. U17 sigraði 8:0 og U19 vann 6:0 í vináttuleikjum í Klaksvík.

Stelpurnar í U17 liðinu hófu leikinn mjög rólega gegn Færeyingum í dag og tók nokkurn tíma að skora fyrsta markið. Þegar Glódís Perla Viggósdóttir braut ísinn eftir um 20 mínútna leik þá lifnaði yfir íslensku stelpunum og þær bættu fljótlega við öðru marki. Staðan var 2:0 í hálfleik en það var ekki fyrr en í síðari hálfleik að stelpurnar fóru virkilega að raða inn mörkunum. Elín Metta Jenssen skoraði 3 mörk í sínum fyrsta landsleik og var mjög spræk í framlínunni. Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði 2 mörk og fyrirliðinn Hugrún Elvarsdóttir 2 mörk í þessum örugga sigri. Margir leikmenn voru að stíga sín fyrstu skref í íslenska landsliðsbúningnum og gerðu það með sóma. Sex af þeim 18 leikmönnum sem leika hér í Færeyjum tóku þátt í Norðurlandamótinu í Danmörku fyrir tveimur vikum. Þorlákur Árnason þjálfari nær því að skoða marga nýja leikmenn og breikka hópinn fyrir Evrópukeppnina sem er í Búlgaríu í september.

Berglind Þorvaldsdóttir skoraði 4 mörk fyrir U19 liðið gegn Færeyjum og hefði jafnvel getað skorað enn fleiri. Hún var mjög hress í framlínunni og dugleg að koma sér í færi. Hildur Sif Hauksdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir skoruðu svo sitthvort markið í öruggum sigri, 6:0. Færeyingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar. Íslensku stelpurnar sigu þó fljótt framúr og ekki bætti úr skák fyrir þær færeysku að snemma í leiknum fékk varnarmaður þeirra að líta rauða spjaldið fyrir að verja boltann með hendi í teignum. Eftir það var aðeins eitt lið á vellinum. Íslensku stelpurnar sköpuðu sér færi í öllum regnbogans litum og hefðu auðveldlega getað skorað mun fleiri mörk, en þær voru oft á tíðum dæmdar rangstæðar þegar þær voru við það að komast í færi. Ólafur Þór Guðbjörnsson náði þrátt fyrir stórsigur að nýta sér leikinn við að leggja upp leikaðferðir sem notaðar verða í Evrópukeppninni í Búlgaríu í september.

Á morgun leika liðin að nýju í Fuglafirði og verður spennandi að sjá hvaða breytingar þjálfararnir gera á liðum sínum fyrir þann leik.

Afar vel fer um íslenska hópinn í Færeyjum og þess má geta að á sama hóteli og íslenski hópurinn gistir dvaldi skáksnillingurinn Anatoli Karpov en hann yfirgaf þó Klaksvík í dag um svipað leyti og liðin voru að gera sig ferðbúin í leikinn og náðu því margar að stelpunum að berja snillinginn augum.