Verðskuldaður sigur íslensku stelpnanna á Svíum
Íslenska unglingalandsliðið, U17 vann í kvöld verðskuldaðan 3:2 sigur á Svíum í síðasta leik liðanna í riðlinum á Opna Norðurlandamótinu sem haldið er í Danmörku. Ísland spilar því um þriðja sætið á mótinu gegn Noregi á laugardag og geta með sigri orðið Norðurlandameistarar þar sem USA og Þýskaland leika úrslitaleikinn, en þær þjóðir eru báðar gestaþjóðir á mótinu.
Íslensku stelpurnar hófu leikinn feikilega vel og skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir strax á annarri mínútu eftir skemmtilegan einleik Aldísar Köru Lúðvíksdóttir sem endaði með skoti í stöng. Guðmunda var fyrst að átta sig og setti frákastið í markið af stuttu færi. Íslensku stelpurnar héldu uppteknum hætti og sóttu nær látlaust að sænska markinu og áttu fjölmörg færi með þær Guðmundu og Aldísi saman í fremstu víglínu, en Þorlákur Árnason þjálfari ákvað fyrr um daginn að breyta leikaðferð liðsins og fara úr leikkerfinu 4-5-1 í 4-4-2. Þessi breyting heppnaðist fullkomnlega og kom Svíum greinilega í opna skjöldu. Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður bætti Aldís við öðru markið liðsins með því að leika á tvo sænska varnarmenn og skjóta svo framhjá markmanninum.
Síðari hálfleikur hófst með sama krafti hjá íslenska liðinu og einkenndi leik þess í þeim fyrri. Þegar um 10 mínútur voru búnar af honum fékk Hildur Antonsdóttir boltann rétt utan teigs Svíþjóðar og skaut hnitmiðuðu skoti yfir markmann Svía. Staðan orðin 3:0 og hálftími eftir. Þarna leit út fyrir að sigur íslenska liðsins væri í höfn. Um 10 mínútum fyrir leikslok fengu Svíar svo víti á silfurfati. Þær gerðu sér lítið fyrir og skorðuðu úr vítinu og skoruðu svo annað mark innan við tveimur mínútum síðar. Síðustu mínútur leiksins voru hörkuspennandi en ljóst að íslensku stelpurnar ætluðu ekki að gefa frá sér sigurinn. Þær börðust fyrir hverjum einasta bolta, hver fyrir aðra og uppskáru verðskuldaðan sigur. Enn og aftur sýndu þær karakterinn sem liðið hefur að geyma.
Þessi leikur var klárlega sá besti á mótinu hjá íslenska liðinu. Stelpurnar voru ófeimnar að halda boltanum og ró var yfir spili þeirra. Liðið skapaði sér urmul marktækifæra og hefði í raun getað skorað mun fleiri mörk. Glódís Perla Viggósdóttir og Lára Kristín Pedersen voru frábærar á miðjunni og arkitektarnir á flestum sóknarlotum íslands. Vörnin var traust og ekki hægt að kenna henni um ósanngjarnt víti sem liðið fékk dæmt á sig. Eins og í fyrri leikjum liðsins var Þorlákur ófeiminn við að skipta varamönnunum inná þrátt fyrir viðkvæma stöðu enda breiddin það mikil í hópnum að liðið efldist einungis við að fá ferska fætur inná.
Liðið er nú komið í þá áhugaverðu stöðu að berjast um Norðurlandameistaratitilinn á mótinu, en það hefur aldrei gerst áður. Leikurinn gegn Noregi á laugardag verður því enn meiri prófsteinn á karakter íslenska liðsins því stelpurnar hafa svo sannarlega sýnt að getan er til staðar.