• þri. 22. jún. 2010
  • Landslið

Króatar lagðir í Laugardalnum - Frakkar framundan

Katrín Jónsdóttir heiðruð fyrir 100. landsleik sinn
Katrin-100-leikir

 

Ísland vann góðan sigur á Króatíu á Laugardalsvelli í kvöld, 3 - 0, eftir að staðan hafði verið 2 -0 í hálfleik.  Íslenska liðið er nú jafnt Frökkum að stigum í 1. riðli undankeppni HM en Frakkar eiga leik til góða.  Næsti leikur liðsins er einmitt gegn Frökkum hér á Laugardalsvelli, laugardaginn 21. ágúst.

Fyrir leikinn var fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir heiðruð en í kvöld lék hún sinn 100. A landsleik fyrir Íslands hönd.  Eftir rólegar fyrstu mínútur tóku stelpurnar við stjórninni og réðu lögum og lofum á vellinum.  Mörkin urðu tvö í fyrri hálfleiknum og í bæði skiptin var HólmfríðurHólmfríður Magnúsdóttir Magnúsdóttir á ferðinni.  Fyrra markið kom á 20. mínútu og það síðara á 42. mínútu.  Færin voru hinsvegar miklu fleiri, boltinn hafnaði í stönginni, slánni, bjargað á línu og mark dæmt af vegna rangstöðu ásamt fleiri góðra færa.

Seinni hálfleikur hófst á sömu nótum og sá fyrri því Sara Björk Gunnarsdóttir átti hörkuskalla á fyrstu mínútum hálfleiksins í þverslánna og þaðan niður á marklínuna.  Íslenska liðið réð ferðinni og skapaði sér nokkur ágætis marktækifæri þó svo þau væru ekki eins mörg og í fyrri hálfleiknum.  Sara Björk var t.d. aftur á ferðinni með skot í þverslána en skömmu síðar kom svo þriðja mark Íslands.  Það fór vel á því að fyrirliðinn Katrín JónsdóttirKatrín Jónsdóttir skoraði það mark í sínum 100. landsleik.  Markið kom með skalla eftir hornspyrnu frá Eddu Garðarsdóttur, eitthvað sem hefur sést áður á þessum bæ.

Fleiri urðu mörkin ekki en 1.875 áhorfendur klöppuðu leikmönnum Íslands lof í lófa þegar flautað var til leiksloka.  Öruggur sigur og markmiðinu náð, því næsti leikur Íslands getur fleytt íslenska liðinu í efsta sæti riðilsins.  Það er leikur gegn Frökkum á heimavelli sem fer fram laugardaginn 21. ágúst en sá dagur er oft kenndur við menningarnótt.  Það er um að gera fyrir Íslendinga að taka þennan dag strax frá til þess að mæta á Laugardalsvöll og hvetja stelpurnar til sigurs.

Katrín Jónsdóttir heiðruð fyrir 100. landsleik sinn