• mán. 21. jún. 2010
  • Landslið

Hundraðasti landsleikur Katrínar Jónsdóttur

Katrín Jónsdóttir
Katrin_Jonsdottir_2008

 

Katrín Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði, leikur sinn 100. landsleik gegn Króatíu þegar þjóðirnar mætast í undankeppni HM á Laugardalsvelli á morgun.  Katrín er leikjahæst allra landsliðskvenna frá upphafi og er annar íslenski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem rýfur 100 leikja múrinn en Rúnar Kristinsson lék 104 landsleiki.

Holland - Ísland 0-1, EM - Rotterdam 24. september 1994Landsliðsferill Katrínar hófst 9. maí árið 1994 þegar hún kom inná sem varamaður í vináttulandsleik gegn Skotum sem fram fór í Glasgow.  Það er óhætt að segja að farsæll landsliðsferill Katrínar hafi farið vel af stað því að íslenska liðið vann Skota, 4 – 1.  Tveimur árum áður lék hún sinn fyrsta U17 landsleik en hún lék 11 slíka landsleiki og 27 U21 landsleiki.  Það er svo félagi Katrínar í landsliðinu, Edda Garðarsdóttir, sem hefur leikið næstflestu A landsleikina eða 81 talsins.

Í leikjunum 99 sem Katrín hefur leikið hingað til hefur hún skorað 17 mörk, nú síðast stangaði hún knöttinn í netið í leik gegn Norður Írum síðastliðinn laugardag.  Fyrsta landsliðsmarkið kom hinsvegar í leik gegn Hollandi, 5. júní 1996, en sigur vannst í þeim leik, 2 – 0.Katrín Jónsdóttir í leik gegn Tékkum á Laugardalsvelli 2006

Katrín er sannur leiðtogi, jafnt innan vallar sem utan og er frábær fyrirmynd fyrir unga knattspyrnuiðkendur.  Við hvetjum knattspyrnuáhugafólk að fjölmenna á Laugardalsvöllinn til þess að hvetja stelpurnar til sigurs gegn Króötum sem og að hylla Katrínu Jónsdóttur í sínum hundraðasta landsleik.

Myndir: Á efstu myndinni sést Katrín fagna marki gegn Slóvenum á Laugardalsvelli árið 2008.  Á annarri myndinni er Katrín fyrir miðri mynd að fagna sigri á Hollendingum árið 1994 en þetta var annar landsleikur Katrínar.  Á neðstu myndinni er Katrín með knöttinn í leik gegn Tékkum á Laugardalsvelli árið 2006.