• lau. 19. jún. 2010
  • Landslið

Skref fyrir skref

Katrín Jónsdóttir
2008Alidkv2008-12-142

A-landslið kvenna tók í dag skref í átt að úrslitaleik riðilsins í undankeppni HM 2011 með átakalitlum 2-0 sigri á Norður-Írum á Laugardalsvellinum, að viðstöddum 1187 áhorfendum.  Úrslitaleikurinn sem um ræðir er heimaleikur gegn Frökkum í ágúst. 

Íslenska liðið hafði leikinn í dag alltaf í hendi sér og var sigurinn aldrei í hættu eftir að Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrra markið eftir um stundarfjórðung.  Gestirnir ógnuðu íslenska markinu ekkert í leiknum.  Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir innsiglaði íslenskan sigur eftir um klukkutíma leik með marki í sínum 99. A-landsleik.  Katrín mun því að öllum líkindum ná þeim merka áfanga á þeiðjudag að leika sinn 100. A-landsleik fyrir Íslands hönd.

Ólína G. Viðarsdóttir fékk áminningu á lokasekúndum leiksins, hennar annað gula spjald í keppninni, sem þýðir að hún verður í leikbanni á þriðjudag.

Næsta skrefið er leikur gegn Króatíu á þriðjudag, einnig á Laugardalsvellinum og eru áhorfendur hvattir til að fjölmenna á þann leik og styðja dyggilega við bakið á stelpunum okkar.