• fös. 11. jún. 2010
  • Pistlar

Dæmum rangstöðu á kynþáttahatur

Navi-Pillay
Navi-Pillay

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta hefst 11. júní. Það er kjörið tækifæri til að huga að því að íþróttir eiga að efla félagslega samheldni, færa mismunandi menningarheima nær hvor öðrum í heilbrigðri samkeppni og yfirstíga mismunun og jafnvel fyrirlitningu sem allt of oft aðsklja ríki og samfélög á pólitískum og félagslegum vettvangi.

Kvikmyndin “Invictus” sem sýnir hvernig Nelson Mandela notaði rúgbí til að lægja öldur og skapa sameiginlega þjóðarvitund, er gott dæmi um slíkt. Suður-Afríka sem hefur sagt skilið við stofnanabundið kynþáttahatur í líki Apartheid, hefur verið valin til að hýsa heimsmeistarakeppnina 2010. Suður-Afríka er bæði fullkominn vettvangur og tækifæri til að efla viðleitni okkar til að berjast gegn hvers kyns mismunun.

 

Stökkpallur fyrir átak gegn kynþáttahatri

Sjálf er ég í senn fórnarlamb kynþáttahaturs og áhugamaður um íþróttir. Ég hvet alla sem stunda íþróttir eða fylgjast bara með, að nota heimsmeistarakeppnina sem stökkpall fyrir hnattrænt átak gegn umburðarleysi og kynþáttahatri.

Raunar má segja að beittustu vopnin gegn umburðarleysi og útlendingahatri séu þau  gildi sem þeim eru andstæðust en eru einmitt í hávegum höfð í hópíþróttum á borð við fótbolta:  heiðarleg samkeppni og samvinna.

Auðvitað höldum við öll með okkar uppáhaldsliðum. Gleymum því hins vegar ekki að Heimsmeistarakeppnin er einstakt tækfæri til að kynnast ýmsum sem við hefðum annars aldrei kynnst og ólíkri sögu þeirra,  menningu og hefðum. Slík tengsl auðga okkur öll. Sameiginleg knattspyrnuástríða okkar treystir samélagsstolt okkar og er farvegur fyrir keppnisskap okkar.

En við skulum vera á varðbergi gegn kynþáttahatri og hvers kyns skorti á umburðarlyndi sem eitra íþróttir og þá sérstaklega fótbolta,  og grafa undan jákvæðum boðskapi hans og koma á hann óorði. Þetta gerist alltof oft þegar andstæðar fylkingar stuðningsmanna ata andstæðingana auri og beita jafnvel ofbeldi.  Því miður gerist slíkt einnig úti á vellinum.

 

Hart verði tekið á brotum

Ýtrustu kröfur eru gerðar til atvinnumanna í fótbolta, hvort tveggja siðferðilegar og lagalegar en reglur FIFA taka meðal annars til mismununar. Samt sem áður hafa auðug félög og knattspyrnusambönd komist undan refsingu með því að greiða smánarlegar sektir fyrir meiri háttar kynþáttahatur sem blossað hefur upp á knattspyrnuleikjum.

Knattspyrnusamböndum hvarvetna ber að fylgja eftir andstöðu í orði með aðgerðum á borði til að uppræta slíka framkomu. Kynþáttahatur og umburðarleysi í eða við knattspyrnuvelli í heimsmeistarakeppninni, má ekki líðast og einangra ber gerendur.

Boðskapur Heimsmeistarakeppninnar er að það sé ekkert pláss fyrir kynþáttahatur og umburðarleysi í íþróttum. Ég fagna afstöðu FIFA og UEFA gegn kynþáttahatri. Bæði samtök hafa eflt starf til að auka umburðarlyndi og skorið upp herör gegn kynþáttahatri. FIFA hyggst koma skýrt og skorinort á framfæri andúð á kynþáttahatri þegar milljónir manna fylgjast með undanúrslitaleikjunum fjórum á HM. Á undan leikjunum munu fyrirliðarnir lesa yfirlýsingu þar sem skorað er á keppendur, dómara og áhorfendur um víða veröld að hafna hvers kyns kynþáttahatri.

 

Tæklum útilokun

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta er einstakt tækifæri til að laða fram hæfileika hvers og eins án tillits til félagslegrar stöðu eða uppruna viðkomandi.  Knattspyrna hefur gert mörgum íþróttamönnum kleyft að brjóta niður múra útilokunar. Árangur þeirra hefur orðið öðrum hvatning. Afreksíþróttamenn – og konur eru hvarvetna fyrirmyndir; fylgst er með hverju fótmáli þeirra og janvel líkt eftir þeim. Ungt fólk er opið fyrir hvers kyns boðskap, jafnt jákvæðum sem neikvæðum, sem kemur frá íþróttahetjum þeirra.

Þegar öllu er á botninn hvolft verða hinir raunverulegu sigurvegarar heimsmeistarakeppninnar, þeir sem munu hafa í heiðri jafnt í orði sem á borði heiðarlega samkeppni, virðingu og umburðarlyndi, innan vallar sem utan. Við skulum sparka mismunun útaf vellinum. Tæklum útilokun. Veiðum kynþáttahatrið í rangstöðugildruna.

Navi Pillay, Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

Þýðing: Árni Snævarr