Áfram Afríka - Ljósmyndasýning Páls Stefánsonar í KSÍ
Föstudaginn 11. júní hefst ljósmyndasýning Páls Stefánssonar, Áfram Afríka, á 3. hæð í höfuðstöðvum KSÍ við Laugardalsvöll. Sýningin var áður í aðalstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York og hafði Áhugamannafélagið Afríka 20:20 frumkvæði að samstarfi á milli KSÍ, Páls og bókaútgáfunnar Crymogea um uppsetningu sýningarinnar í húsnæði KSÍ. Myndir á sýningunni er að finna í samnefndri ljósmyndabók og verður útgáfa hennar kynnt við opnunina.
Ljósmyndasýningin verður opin almenningi og íþróttafélögum á virkum dögum í sumar, frá klukkan 8 – 16. Líkt og með bók Páls er markmið sýningarinnar að veita innsýn í mikinn áhuga á fóbolta í löndum Afríku og að lífið þar snýst líka um leik og skemmtun. Opnun sýningarinnar 11. júní er í tilefni upphafs fyrstu úrslitakeppni HM sem haldin er í Afríku. Áhuginn á mótinu er mikill og líklegt að hvatningarhróp til stuðnings Suður-Afríku hljómi um alla Afríku.
Crymogea
www.crymogea.is
Páll Stefánsson
ÁFRAM AFRÍKA
„Þessi bók er óður til alls þess sem er fagurt í afrískri knattspyrnu.“ - Didier Drogba
Um leið og HM í knattspyrnu hefst í Suður-Afríku kemur út bókin Áfram Afríka eftir Pál Stefánsson. Áfram Afríka er í senn óður til knattspyrnunnar, útbreiddustu íþróttar heims, og hinnar ótrúlegu heimsálfu Afríku þar sem fótboltinn er miklu meira en bara íþrótt. Formála ritar afríski leikmaður ársins 2009, Didier Drogba, fyrirliði landsliðs Fílabeinsstrandarinnar.
Páll Stefánsson fylgir boltanum um lönd Afríku og tekur lesandann með í ferðalag um álfuna alla, frá Grænhöfðaeyjum og Senegal í vestri til Eþíópíu og Tansaníu í austri, frá Marokkó og Egyptalandi í norðri til Suður-Afríku. Bókin dregur fram kraftinn og gleðina í daglegu lífi Afríkubúa sem svo oft dylst á bak við fréttir af fátækt, ófriði og óáran og gefur algerlega nýja innsýn í fótboltamenningu álfunnar. Í knattspyrnunni birtist sú framtíð sem Afríka á skilið.
Inngangurinn er eftir einn þekktasta rithöfund Afríku, Orange-verðlaunahafann Chimamanda Ngozi Adiche frá Nígeríu, og fremsti sérfræðingur heims í afrískum fótbolta, íþróttafréttamaðurinn Ian Hawkey, skrifar ágrip af sögu knattspyrnunnar í Afríku. Áfram Afríka eftir Pál Stefánsson er eitt viðamesta ljósmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Um 200 myndir bókarinnar eru valdar úr safni um 35.000 ljósmynda sem teknar voru á nærri þriggja ára tímabili í 14 löndum Afríku.
Um höfundana
Páll Stefánsson er fyrir löngu landsfrægur fyrir ljósmyndir sínar. Í aldarfjórðung hefur hann verið á þrotlausu flakki um heiminn í leit að sífellt betri myndum og eftir hann liggja fjölmargar bækur. Myndir hans hafa birst í blöðum og tímaritum á borð við Condé Nast Traveller, Sunday Times, Geo, Time Magazine og Big og hann hefur unnið stór ljósmyndaverkefni fyrir alþjóðleg fyrirtæki á borð við Hasselblad, Volkswagen og IKEA. Hann er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni um að ljósmynda alla staði á heimsminjaskrá UNESCO og vinnur að bók um tíu menguðustu staði heims.
Didier Drogba fæddist í Abidjan, höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar, árið 1978. Hann hóf atvinnumannaferil sinn í Frakklandi en varð heimsfrægur eftir að hann hóf að leika með Lundúnaliðinu Chelsea FC árið 2004 og hefur átt gríðarlegan þátt í velgengni þess á undanförnum árum. Hann er fyrirliði landsliðs Fílabeinsstrandarinnar og helsti markaskorari þess fyrr og síðar. Afríska fótboltasambandið CAF hefur tvisvar valið hann leikmann ársins í Afríku, 2006 og 2009.
Chimamanda Ngozi Adiche er fædd árið 1977 í Nígeríu og ólst upp í bænum Nsukku í suðausturhluta landsins. Hún hlut mikla viðurkenningu fyrir fyrstu skáldsögu sína Purple Hisbiscus en önnur skáldsaga hennar Hálf gul sól (Half of a Yellow Sun 2006) sló í gegn og hefur komið út um allan heim, meðal annars á íslensku. Fyrir hana hlaut hún hin virtu Orange-bókmenntaverðlaun.
Ian Hawkey var lengi íþróttafréttaritari Sunday Times í Jóhannesarborg og er einn fremsti sérfræðingur heims um afríska knattspyrnu. Bók hans um sögu afrískrar knattpspyrnu, Fætur kameljónsins (Feet of the Chameleon 2009), var hlaðin lofi af gagnrýnendum og íþróttaáhugamönnum.
Páll Stefánsson
ÁFRAM AFRÍKA
Formáli Didier Drogba
Inngangur Chimamanda Ngozi Adiche
Eftirmáli Ian Hawkey
240 bls.
248 x 279 mm
196 myndir
Einnig fáanleg á ensku: Africa – The Future of Football