• lau. 29. maí 2010
  • Landslið

Öruggur 4-0 sigur Íslands á Andorra

Heiðar Helguson
Heidar_Helgu_1

A landslið karla vann í dag, laugardag, 4-0 sigur á liði Andorra á Laugardalsvellinum að viðstöddum rúmlega 2.500 áhorfendum.  Sigurinn var nokkuð öruggur eins og tölurnar gefa til kynna, en leikmenn íslenska liðsins áttu þó í vandræðum með að brjóta á bak varnarmúr gestanna, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar liðið náði ekki að skapa sér mörg færi.  Fyrri hálfleikurinn var heldur bragðdaufur, en sá síðari mun skemmtilegri, enda þrjú íslensk mörk skoruð.

Fyrsta mark leiksins gerði fyrirliðinn Heiðar Helguson eftur um hálftíma leik úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að varnarmaður Andorra handlék knöttinn.  Heiðar bætti síðan öðru marki við fljótlega í síðari hálfleik með glæsilegum skalla eftir aukaspyrðu Gylfa Sigurðssonar, sem var að leika sinn fyrsta A-landsleik.  Með mörkunum sínum tveimur hefur Heiðar Helguson nú skorað 10 mörk fyrir A-landsliðið.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði þriðja mark Íslands þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum, úr vítaspyrnu sem dæmd hafði verið eftir brot á Steinþóri Frey Þorsteinssyni.  Kolbeinn Sigþórsson innsiglaði svo sigur Íslands með fjórða markinu í blálokin, hans annað mark í þremur landsleikjum, eftir sendingu frá Eggerti Gunnþór Jónssyni.

Sannarlega verðskuldaður sigur hjá þessu unga íslenska liði sem þurfti að sýna mikla þolinmæði gegn hægum leikstíl og öflugum varnarmúr Andorra.

Íslenska landsliðið hefur nú leikið fjóra vináttulandsleiki á þessu ári, unnið tvo og gert tvö jafntefli, án þess að fá á sig mark.  Markatalan það sem af er árinu er 6-0.