• mið. 12. maí 2010
  • Fræðsla

Grasrótarvika hér á landi 13. - 19. maí

Grasrótarverkefni UEFA
uefa-grassroots-minna

Þann 19. maí næstkomandi stendur UEFA (Knattspyrnusamband Evrópu) fyrir sérstökum Grasrótardegi (UEFA Grassroots Day).  Dagurinn 19. maí er ekki valinn af tilviljun, heldur er þessi dagur sérstaklega valinn til að tengja verkefnið úrslitaleik Meistaradeildar UEFA, sem fram fer laugardaginn 22. maí.  Með Grasrótardeginum er minnt á að afreksknattspyrna á hæsta þrepi getur ekki þrifist án heilbrigðrar grasrótar í knattspyrnuhreyfingunni. 

Hér á landi verður haldin Grasrótarvika sem hefst á morgun, 13. maí og lýkur á sjálfan Grasrótardaginn 19. maí.  Á morgun hefst Reykjavíkurmót í 6. og 7. flokki karla og kvenna en leikið verður í Egilshöllinni.  Mótið heldur svo áfram 15. – 18. maí.

Íslandsleikar Special Olympics verða svo haldnir með miklum glæsibrag á KR vellinum, sunnudaginn 16. maí.  Þar verður viðamikil dagskrá eins og sjá má hér að neðan:

  • Leikið verður á tveimur völlum á gervigrasinu ( 2 x 1/4 hluti vallar ) og einum velli á grasi
  • Þormóður Egilsson fyrrverandi fyrirliði mfl.KR mun sjá um upphitun
  • Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar mun setja mótið
  • Mfl.kvenna dæmir alla leikina á mótinu
  • Grillaðar pylsur fyrir alla að móti loknu í boði KR
  • Öllum þátttakendum og foreldrum boðið á leik KR - Selfoss sem hefst kl.19.15
  • 4. flokkur KR mætir með 16 leikmenn sem leika við besta lið Asparinnar
  • Geir Þorsteinsson formaður KSÍ afhendir verðlaun ásamt  Gylfa Sigurðssyni leikmanni Reading   

Þá er vert að nefna verkefnið sem hægt er að kalla „Berfætt í boltanum“.  Þar eru grunnskólar og aðildarfélög hvött til þess að leyfa bekkjum og iðkendum að leika knattspyrnu berfætt.  Er það gert til þess að minna á að ekki eru öll börn heimsins svo lánsöm að geta leikið knattspyrnu í við ásættanlegan aðbúnað eða í viðeigandi skóbúnaði.  Í raun er það þannig að mörg börn eiga ekki einu sinni skóbúnað, hvað þá takkaskó.

Hugmynd KSÍ gengur út á það að vikuna 17. til 21. maí verði leikin knattspyrna að minnsta kosti einu sinni í íþróttatímum hvers árgangs allra grunnskóla landsins og að börnin sem taka þátt verði þá án skóbúnaðar, þ.e. berfætt, eins og raunin er með svo mörg börn annars staðar í heiminum. 

Aðildarfélög eru hvött til þess að nota Grasrótardaginn sjálfan, 19. maí og leyfa iðkendum sínum að leika knattspyrnu berfætt á æfingu og setji sig þannig í fótspor barna víðsvegar um heiminn. Vonumst við til að skólar og félög taki myndir af framtakinu, birti á heimasíðum sínum og sendi jafnframt myndir og tilkynningu um þátttöku á KSÍ á netfangið gudlaugur@ksi.is

Nánari upplýsingar um Grasrótardag UEFA má finna á www.uefagrassrootsday.com.