Þriggja marka sigur á Króötum
Íslenska kvennalandsliðið bar í dag sigurorð af Króötum í undankeppni fyrir HM 2011. Leikið var í Króatíu og urðu lokatölur 3 - 0 fyrir Íslendinga eftir að staðan hafði verið 2 - 0 í leikhléi. Þær Katrín Jónsdóttir, Rakel Logadóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu mörk Íslendinga.
Íslenska liðið fékk óskabyrjun þegar að fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir kom liðinu yfir strax á 3. mínútu. Íslenska liðið hafði yfirhöndina allan tímann í leiknum og Margrét Lára kom Íslandi í 2 - 0 eftir 37 mínútur.
Eitt mark var gert í síðari hálfleik og þar var á ferðinni Rakel Logadóttir en hún kom inná sem varamaður í lok fyrri hálfleiks fyrir Ólínu Viðarsdóttur sem meiddist. Íslenska liðið fékk fjölmörg færi í seinni hálfleiknum en aðeins eitt mark leit dagsins ljós.
Ísland hefur nú 15 stig í riðlinum eins og Frakkland en Frakkar eiga einn leik inni, leika við Norður Íra í kvöld.
Næsti leikur íslensku stelpnanna er einmitt gegn Norður Írum en leikið verður þá á Laugardalsvelli, laugardaginn 19. júní.