• mán. 29. mar. 2010
  • Pistlar

Um fótbolta

Gísli Gíslason
Gisli-Gislason

 

Sem betur fer býr íslensk íþróttahreyfing að ósérhlífnu fólki sem leggur metnað sinn og orku í uppeldi íþróttafólks.  Satt að segja er það ekki heiglum hent að reka íþróttafélög, en engan þekki ég sem vex verkefnið í augum eða hefur áhyggjur af því sem leysa þarf.  Þess vegna verður til íslenskt afreksfólk í ótrúlegum mæli.  Okkar svið er knattspyrnan þar sem tugþúsundir ungmenna eru þátttakendur í skipulagðri íþróttastarfsemi.  Stjórnendur félaga bera þar ábyrgð á félagslegum-, fjárhagslegum- og faglegum þáttum og knattspyrnusambandið heldur utan um hinn víða ramma starfseminnar.  Um nokkur atriði vil ég leggja orð í belg.

Ég er ekki frá því að eftir „hrun“ hafi viðhorf stjórnenda og iðkenda eilítið breyst í átt til eldri gilda um félagslegt uppeldi.  Ef svo er þá er sú breyting jákvæð.  Nýlega héldu Þróttarar „dag kvennaknattspyrnunnar“ með þátttöku meistaraflokkskarlanna og sýnist mér það gott framtak.  Sömuleiðis er framtak ÍR-inga gegn einelti flott verkefni.  Í raun ætti að halda árlega „Dag knattspyrnunnar“ þar sem áhersla væri lögð á félagsleg gildi knattspyrnuhreyfingarinnar – fyrir drengi og stúlkur, konur og karla.  Samhlið væri til umhugsunar fyrir KSÍ og félögin að beina sjónum sínum að því hvernig styrkja megi almennt hinn félagslega þátt, sem án vafa er til þess að auka þroska iðkendanna hvort heldur þeir iðka knattspyrnu sér til yndisauka eða stefna á stærri afrek.

Um fjárhagsþátt félaganna má nefna að nýleg umræða um framlög ríkisins og meintan rétt þess til að skipta sér af málefnum hreyfingarinnar er merkileg.  Í raun eru framlög ríkisins til íþróttamála óveruleg ekki síst í því ljósi að megin þunginn af starfseminni er unnin af sjálfboðaliðum.  Enn merkilegri eru tilviljanakenndar ákvarðanir um styrki til sérsambanda eftir að góðum árangri er náð.  Ekki minnist ég þess að ráðherrar eða ríkisstjórn hafi stuðlað að þeim góða árangri með því að legga til framlag sem máli skiptir áður en haldið er til keppni.  Að mínu viti ætti KSÍ að beita sér fyrir því að íþróttahreyfingin kalli eftir skýrari stefnumörkun í aðkomu ríkisins og gerð sáttmála um framlög og stuðning.  Í því efni er af nógu að taka.  Framkvæmdaboltanum hefur verið varpað í fangið á sveitarfélögunum, sem um flest hafa staðið sig vel – en betur má ef duga skal.  Nærri fjórðungur framkvæmda sveitarfélaganna og íþróttahreyfingarinnar rennur í formi virðisaukaskatts til ríkisins og lítið framlag þess á tyllidögum í tilefni góðs árangurs einstakra íþróttagreina er óverulegt endurgjald í því skyni að varpa ljóma á þá sem sitja í ráðherrastólum á hverjum tíma.  Nú er sérstök þörf á frekari framlögum til hinnar reglulegu starfsemi íþróttahreyfingarinnar og til uppbyggingar mannvirkja, enda munu slík framlög skila ríkulegum arði til lengri framtíðar.

Þegar litið er á faglega uppbyggingu knattspyrnufélaga þá verður að hrósa KSÍ fyrir þá vinnu sem átt hefur sér stað á liðnum árum – en eflaust má gera betur og byggja á því sem þegar hefur áunnist.  Aukin menntun þjálfara er að skila sér í myndalegum hópi fagfólks sem án vafa hefur haft áhrif á aukin gæði knattspyrnunnar og ekki má gleyma frábæru framtaki varðandi dómgæsluna sem hefur tekið stór skref fram á við.  Til þess að standa undir nafni sem hreyfing þá verður að varast stöðnun og sækja fram.  Í því efni hefur mér m.a. verið hugleikið hvort breikka eigi þann grunn sem myndar starfsemi yngri flokkanna – þ.e. að bæta einum árgangi við áður en knattspyrnufólk telst komið í hinn efsta flokk meistaranna.  Nánari útfærslu læt ég sérfræðingunum eftir að ræða.  Á síðasta ársþingi KSÍ var þess getið að nefnd á vegum KSÍ hefði komist að því að ekki væru efni til breytinga, en því er ég ekki sammála.  Ég held að það styrki einmitt starfið – ekki síst á landsbyggðinni – að bæta einu ári við yngri flokkana.  Þá má nefna að á sviði fræðslumála eru ýmis verkefni sem leggja þyrfti aukna áherslu á, svo sem leikskilning og tækni, fjárhagslega uppfræðslu starfsmanna félaga og margt fleira sem eflaust er efni í fleiri pistla og umræðu á vettvangi knattspyrnunnar.

 

Gísli Gíslason,

formaður Knattspyrnufélags ÍA