• sun. 28. mar. 2010
  • Landslið

Sætur sigur á Serbíu

Hólmfríður Magnúsdóttir
2008Alidkv2008-09-017

Íslenska kvennalandsliðið vann ákaflega sætan sigur á Serbíu í undankeppni HM 2011 en leikið var í Banatski Dvor.  Lokatölur urðu 2 - 0 Íslandi í vil eftir að markalaust hafði verið í hálfleik.  Það var Hólmfríður Magnúsdóttir sem skoraði bæði mörk Íslands.

Íslenska liðið hafði undirtökin allan leikinn og fékk nokkur góð færi í fyrri hálfleik en náði ekki að brjóta ísinn.  Okkar stelpur héldu áfram pressunni í seinni hálfleik og á 53. mínútu var það Hólmfríður Magnúsdóttir sem kom boltanum í netið en hún fékk góða sendingu frá Sif Atladóttur og skoraði örugglega.

Hólmfríður var aftur á ferðinni sex mínútum fyrir leikslok þegar hún gerði út um leikinn með góðu skoti í fjærhornið.  Tuttugasta mark Hólmfríðar í 55 landsleikjum sem er frábær árangur hjá "vinstri bakverði".

Stelpurnar halda núna til Króatíu þar sem leikið verður við heimastúlkur á miðvikudaginn.  Króatía tapaði, frekar óvænt, gegn Eistlandi í dag með þremur mörkum gegn engu og koma því vafalaust grimmar til leiks.  Efsta lið riðilsins, Frakkland, vann Norður Íra í dag með sex mörkum gegn engu.

Vert er að benda á að netmiðilinnn mbl.is var með beina textalýsingu af leiknum gegn Serbíu og mun fylgja liðinu til Króatíu.