• fim. 25. mar. 2010
  • Landslið

Markalaust jafntefli gegn Mexíkó í Charlotte

A landslið karla
ksi-Akarla

Ísland og Mexíkó gerðu markalaust jafntefli í vináttulandsleik sem fór fram í nótt en leikið var á Bank of America vellinum í Charlotte.  Hið unga íslenska lið gaf Mexíkóum ekkert eftir og gáfu fá færi á sér.  Stemningin á vellinum var eins og best verður á kosið, 63.227 manns mættu á völlinn og voru vel með á nótunum.

Eins og búast mátti við voru "heimamenn" meira með boltann í leiknum en íslensku strákarnir voru þó óhræddir við að sækja, sérstaklega í fyrri hálfleik.  Ekki var mikið um opin marktækifæri í leiknum en Mexíkóar sóttu töluvert á lokakaflanum og áttu m.a. skot í þverslána.  Jafntefli eru virkilega góð úrslit og leikurinn og umgjörð hans í heild sinni, mikil og góð reynsla fyrir liðið.

Gunnar Örn Jónsson lék sinn fyrsta landsleik þegar hann kom inná á 87. mínútu leiksins.

Í heild var leikurinn ágætasta skemmtun fyrir áhorfendur, þrátt fyrir markaleysið, en rúmlega 60 Íslendingar voru á vellinum og létu ekki sitt eftir liggja á þessum glæsilega leikvangi.