• þri. 23. mar. 2010
  • Leyfiskerfi

Átta þátttökuleyfi veitt á fundi leyfisráðs

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Leyfisráð tók í dag fyrir leyfisumsóknir 8 félaga, þriggja félaga úr 1. deild karla og fimm félaga úr Pepsi-deild karla.  Félögin átta fengu öll þátttökuleyfi og þar með hafa öll félögin 24 sem undirgangast kerfið samþykkt þátttökuleyfi í höndunum.  Þremur félögum er þó veitt þátttökuleyfi með ákveðnum fyrirvörum um mannvirkjamál og tvö félög verða beitt viðurlögum (dagsektir) vegna dráttar á skilum á fjárhagslegum gögnum.

Í kjölfar úttektar UEFA á leyfiskerfi KSÍ síðastliðið haust komu fram nokkrar athugasemdir við matsferli KSÍ og var unnið eftir þeim ábendingum að hluta til nú, m.a. voru styrktar vinnureglur við mat á því að engin vanskil væru við leikmenn og þjálfara vegna launa, og var kallað eftir eisntaklingsstaðfestingum frá leikmönnum og þjálfurum.  Á meðal annarra athugasemda UEFA má nefna mat á uppeldisáætlunum ungra leikmanna, en næsta sumar mun KSÍ framkvæma úttektir á unglingastarfi félaga og verður sú vinna útfærð nánar á komandi vikum.  Þeim athugasemdum sem þegar hefur ekki verið unnið úr verður fundinn farvegur og þeim hrint í framkvæmd fyrir leyfisferli næsta árs, en þær athugasemdir snúa meðal annars að matsferli endurskoðanda, áritun endurskoðanda á ársreikninga, mati á reikningsskilaaðila og ýmsu fleiru.

Ákvarðanir leyfisráðs á fundi 23. mars 2010

Efsta deild

Breiðablik

Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.

Haukar

Þátttökuleyfi veitt.

Leyfisráð gerir tillögu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að félagið verði beitt viðurlögum samkvæmt 8. grein leyfisreglugerðar þar sem krafa um aðstoðarþjálfara meistaraflokks og menntun hans er ekki uppfyllt.

ÍBV

Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.

Keflavík

Þátttökuleyfi veitt.

Þátttökuleyfi er veitt fyrir keppni á aðalleikvangi Keflavíkur.  Vegna endurbyggingar leikvallar þar, sem áætlað er að ljúki fyrir lok júní, er þó ljóst að fyrstu heimaleikir Keflavíkur geta ekki farið fram á leikvanginum.  Við úrlausn vegna þeirra heimaleikja, sem þurfa að fara fram annars staðar, skal félagið fylgja þeim ábendingum og lágmarkskröfum sem KSÍ setur um sætafjölda og aðra aðstöðu.

Selfoss

Þátttökuleyfi veitt.

Þátttökuleyfi er veitt fyrir keppni á aðalleikvangi UMF Selfoss, sbr. framlagðar áætlanir.  Við úrlausn vegna þeirra heimaleikja sem þurfa að fara fram áður en leikvangurinn er tilbúinn til keppni (um miðjan júlí) skal fylgja þeim ábendingum og lágmarkskröfum sem KSÍ setur um sætafjölda og aðra aðstöðu.

1.deild

Fjarðabyggð

Þátttökuleyfi veitt.

Þátttökuleyfið er veitt gegn því að heimaleikir Fjarðabyggðar fari fram í Fjarðabyggðarhöllinni, sem er eini leikvangurinn í sveitarfélaginu sem uppfyllir kröfur um leikvang í flokki C samkvæmt Reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, eins og krafist er í Leyfiskerfi KSÍ fyrir keppni í 1. deild karla.  KSÍ getur heimilað frávik frá þessu, þannig að leikið sé á öðrum leikvangi í sveitarfélaginu, að uppfylltum almennum ákvæðum reglugerðarinnar og með mögulegri aðlögun samkvæmt grein 44.2.

-----

Reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga

44.2 Ákvæði um aðlögun að sætafjölda í 1. deild karla:

Hægt er að sækja um aðlögun að kröfum um sætafjölda, samkvæmt grein 21, flokki C fram að upphafi keppnistímabils 2012 og skulu framkvæmdatillögur um úrbætur, staðfestar af viðeigandi félagi og sveitarfélagi fylgja með. Þangað til settum sætafjölda er náð er gerð krafa um skipulögð áhorfendasvæði fyrir a.m.k. 300 manns. Með skipulögðum áhorfendasvæðum er átt við uppbyggð stæði með varanlegu undirlagi (s.s. malbiki, hellum eða timburbekkjum) eða bekki og reiknað með a.m.k. 50 cm stæðis- eða sætisbreidd á mann.

Fjölnir

Þátttökuleyfi veitt.

Leyfisráð gerir tillögu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að félagið verði beitt viðurlögum skv. grein 8 í leyfisreglugerð vegna dráttar á skilum á fjárhagsgögnum.

Þróttur R.

Þátttökuleyfi veitt.

Leyfisráð gerir tillögu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að félagið verði beitt viðurlögum skv. grein 8 í leyfisreglugerð vegna verulegs dráttar á skilum á fjárhagsgögnum.