KSÍ aðili að námskeiðaröð í grasvallafræðum
Knattspyrnusamband Íslands kemur að námskeiðaröð sem nefnist "Betri vellir" en samningar þess efnis voru undirritaðir um helgina. Með þessari námskeiðaröð er markmiðið að gera menn betur búna til þess að sjá um viðhald gras- og gerviefnavalla.
Að námskeiðaröðinni koma, auk KSÍ: SÍGÍ(Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi), Golfsamband Íslands, Íþrótta- og Tómstundasvið Reykjavíkur og Landbúnaðarháskóli Íslands. Það verður Landbúnaðarháskólinn sem sér um framkvæmd námskeiðanna sem og skipulagningu og utanumhald kennslunnar.
Þeir sem undirrituðu samninginn voru: Geir Þorsteinsson formaður KSÍ, Steinþór Einarsson frá ÍTR, Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ og Ólafur Þór Ágústsson formaður SÍGÍ.