Ísland - Færeyjar í Kórnum á sunnudaginn kl. 12:00
Ísland og Færeyjar mætast í vináttulandsleik í Kórnum á sunnudaginn og hefst leikurinn kl. 12:00. Miðasala hefst í Kórnum kl. 11:00 á leikdag en ekki verður forsala miða á þennan leik. Miðaverð er kr. 1.000 fyrir fullorðna, 17 ára og eldri en frítt er inn fyrir börn 16 ára og yngri.
Þetta er þriðja árið í röð sem að þjóðirnar leika vináttulandsleik í Kórnum í marsmánuði. Þegar þjóðirnar áttust við í mars í fyrra höfðu frændur okkar betur með tveimur mörkum gegn einu. Árið 2008 léku þjóðirnar fyrsta karlalandsleikinn sem leikinn var innanhúss hér á landi og sigruðu þá Íslendingar með þremur mörkum gegn engu.
Íslenski hópurinn
Þar sem ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða er íslenski hópurinn að langmestu skipaður leikmönnum sem leika hér á landi. Fjórir nýliðar eru í hópnum að þessu sinni og sjö leikmenn hafa einungis leikið einn landsleik. Tveir leikmenn af tuttugu manna hóp hafa leikið fleiri en 10 landsleiki, þeir Bjarni Guðjónsson og Gunnleifur Gunnleifsson.
Íslenski hópurinn og hans fylgdarlið þarf svo að hafa hraðann á því strax eftir leik verður haldið til Keflavíkur og flogið til Bandaríkjanna en framundan er annar vináttulandsleikur við Mexíkó sem fer fram miðvikudaginn 24. mars.
Færeyski hópurinn
Í Færeyska hópnum eru þrír leikmenn sem leikið hafa hér á landi með íslenskum félagsliðum, þeir: Fróði Benjaminsen og Símun Samuelsen úr HB og Rógvi Jacobsen úr ÍF. Þá er Gunnar Nielsen annar markvarða hópsins en hann er af íslenskum ættum, á íslenska móður. Lesa má viðtal við kappann á heimasíðu Manchester City hér.
En hópur landsliðsþjálfarans Brian Kerr er þannig skipaður:
Meinhardt Joensen, Jákup á Borg, Christian R. Mouritsen B36
Fróði Benjaminsen, Símun Samuelsen, Vagnur Mohr Mortensen HB
Jóhan Troest Davidsen, Einar Hansen, Jan Ingi Petersen NSÍ
Rógvi Jacobsen, Høgni Zachariasen ÍF
Atli Gregersen, Súni Olsen Víkingur
Egil á Bø EB/Streymur
Bogi Løkin, Jónas Tór Næs, Andreas Lava Olsen Frem
Atli Danielsen Roskilde
Jóan Símun Edmundsson Newcastle
Gunnar Nielsen Manchester City