• fim. 11. mar. 2010
  • Fræðsla

Mottur út um allt!

Mottur í mars!
Mottuhopmynd

Eins og flestum ætti að vera kunnugt um er nú í gangi árvekniátaka Krabbameinsfélags Íslands, Karlmenn og krabbamein.  Karlkyns starfsmenn Knattspyrnusambandsins láta sitt ekki eftir liggja og veita þessu þarfa málefni lið af bestu getu.

Mottumars hefur verið tekinn með trompi innan veggja sambandsins og í dag var afraksturinn myndaður.  Ef vel er rýnt í myndina hér að neðan, má sjá að allur þessi hópur hefur náð að mynda einhvers konar mottu á sína efri vör.  Eðlilega eru þær eins misjafnar og þær eru margar en menn láta það ekki á sig fá enda málefnið gott.

Samhliða þessu átaki er í gangi fjársöfnun Krabbameinsfélagsins þar sem hægt er að heita á keppendur sem skráðir eru til leiks í "Mottumars".  Þeir sem vilja heita á starfsmenn KSÍ geta fengið nánari upplýsingar hér að neðan. Allir fjármunir renna beint til Krabbameinsfélagsins og þegar þetta er skrifað hafa safnast tæpar átta milljónir króna. 

http://www.karlmennogkrabbamein.is/keppnin/keppandi?cid=1302

Mottur í mars!

Af hverju þetta árvekniátak?

Árlega greinast á Íslandi að meðaltali 716 karlar með krabbamein. Árlega deyja að meðaltali 278.  Þetta eru synir, bræður, pabbar, afar, vinir og makar. Þitt framlag skiptir miklu máli. Við getum haft áhrif, því rannsóknir sýna að koma má í veg fyrir að minnsta kosti 1 af hverjum 3 krabbameinum.

Af hverju yfirvaraskegg?

Yfirvaraskegg er táknrænt. Það auðveldar umræðu um það sem erfitt er að ræða. Krabbamein í karlmönnum hefur verið feimnismál allt of lengi. Safnaðu mottu og vertu hvatning fyrir aðra að gera það sama. Safnaðu mottu og reyndu að vekja athygli vina og vandamanna og annara samborgara á málefninu.

Hvað gera forvarnir?

Þegar menn er komnir yfir fertugt aukast líkurnar á því að fá krabbamein. Því er mikilvægt að þekkja almenn einkenni. Við leggjum því áherslu á að kynna einkenni algengustu krabbameina og að auka umræðuna í þjóðfélaginu, því krabbamein er ekki feimnismál. Einnig leggur Krabbameinsfélagið sérstaka áherslu á að hafin verði ristilkrabbameinsleit.

Hvað getur þú gert?

Smábreytingar í daglegu lífi, málið snýst ekki bara um krabbamein heldur almennt betra heilsufar og líðan. Hægt er að koma í veg fyrir að minnsta kosti 1 af hverjum 3 krabbameinum með breyttum lífsstíl. Vertu vakandi fyrir einkennum og þekktu líkama þinn. Ef einkenni koma fram og eru ekki horfin eftir þrjár til fjórar vikur ættir þú að leita til læknis.

Fjármunir sem safnast í átakinu Karlmenn og krabbamein verða notaðir í rannsóknir, forvarnir, stuðning og ýmis önnur verkefni sem tengjast baráttunni við krabbamein í karlmönnum. Hér á heimasíðunni getur þú stofnað þína eigin fjáröflun til styrktar málefninu. Hér getur þú hvatt vini og kunningja til þess að leggja málefninu lið. Einnig er hægt að styrkja Krabbameinsfélagið með því að gerast Velunnari félagsins. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins http://www.krabb.is/.

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er hægt að leita svara við spurningum af öllu tagi um krabbamein, bæði að kostnaðarlausu og nafnlaust. Gjaldfrjáls símaráðgjöf er í síma 800 4040. Netfangið er 8004040@krabb.is.