• mán. 08. mar. 2010
  • Dómaramál

Frá fundi Alþjóðanefndar FIFA um helgina

Merki FIFA
FIFA

Á fundi Alþjóðanefndar FIFA (IFAB), sem haldinn var í Zürich laugardaginn 6. mars sl. voru eftirfarandi ákvarðanir teknar:

  • 5. grein í túlkun laganna: Skoska knattspyrnusambandið lagði til að leikmaður sem meiðist þurfi ekki að yfirgefa leikvöllinn til meðhöndlunar hafi hann meiðst við leikbrot mótherja. Meiðsli hans verði meðhöndluð inni á vellinum. Ákvörðun var frestað, “tækninefnd” IFAB mun fjalla um málið og leggja tillögu fyrir næsta “reglulega” fund (feb/mars 2011).
  • 5. grein í túlkun laganna: Skoska knattspyrnusambandi lagði til að ef tveir leikmenn sama liðs meiðast í samstuði hvor við annan þurfi þeir ekki að yfirgefa leikvöllinn til þess að fá meðhöndlun meiðsla sinna. Tillagan var samþykkt.
  • 5. grein í túlkun laganna: Skoska knattspyrnusambandið lagði til að ákvæðið um að “börumenn” skuli fara inn á völlinn á sama tíma og læknar þegar meiðsli eiga sér stað verði breytt í þá veru að þeir komi einungis inn á völlinn eftir merki dómara. Tillagan var samþykkt – börumenn bíði framvegis merkis dómara.
  • 12. grein laganna um brottvísun: FIFA lagði til að nefndin ræddi um leikbrot sem leiða til brottvísunar, sérstaklega hvað varðar hina þreföldu refsingu (vítaspyrna, rautt spjald, leikbann) sem af því hlýst þegar leikmaður neitar mótherja um upplagt marktækifæri – gult spjald eða rautt ? Ákvörðun var frestað til næsta fundar nefndarinnar 17.-18. maí nk.
  • 14. grein laganna um vítaspyrnu: FIFA lagði til að nefndin ræddi hvort áfram ætti að heimila leikmanni sem tekur vítaspyrnu að vera með gabbhreyfingar og að stoppa í atrennu sinni. Ákvörðun var frestað til næsta fundar nefndarinnar 17.-18. maí nk.
  • Fjórði dómarinn: Skoska knattspyrnusambandið lagði til að rætt yrði um nánari skilgreiningu á hlutverki fjórða dómarans, sérstaklega hvað fælist í þeirri skyldu hans að “aðstoða dómarann hvenær sem þörf kræfi”. Ákvörðun var frestað til næsta fundar nefndarinnar 17.-18. maí nk.
  • Auka-aðstoðardómarar: Rædd var skýrsla um árangurinn af fimm-dómara tilrauninni í Evrópudeildinni. Nefndin mun ræða málið frekar á næsta fundi nefndarinnar 17. – 18. maí nk. (þegar lokaskýrsla um “Evrópudeildar tilraunarinnar” liggur fyrir).
  • “Marklínu-tækni”: Nefndin tók þá ákvörðun (6 á móti 2) að svokölluð “marklínutækni” kæmi ekki til greina.