• fös. 05. mar. 2010
  • Fræðsla

Vorráðstefna SÍGÍ 2010

Merki SÍGÍ
SIGI

Þann 12. og 13. mars næstkomandi verður „Vorráðstefna SÍGÍ 2010“(Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi ).  Á ráðstefnunni verða skemmtilegir og fræðandi fyrirlesarar, jafnt innlendir sem erlendir.

Að vanda verður ráðstefnan upplýsandi fyrir alla félagsmenn SÍGÍ.  Lögð  verður áhersla á fræðslu fyrir starfsmenn knattspyrnuvalla ásamt því að vera með fræðandi og skemmtilega fyrirlestra fyrir starfsmenn golfvalla.  Meðal fyrirlesara verða meðal annars Scott Forrest, sölustjóri Jacobsen í Evrópu, Dean Cleaver, framkvæmdarstjóri FEGGA og Len Stewart, fyrrum kennari við Elmwood College.  Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Ráðstefnan hefst á föstudaginn 12. mars kl. 13:00 með aðalfundi SÍGÍ og lýkur að kvöldi laugardags með veislukvöldverði í golfskála Keilismanna í Hafnarfirði.  Nánari dagskrá ráðstefnunnar verður auglýst þegar nær dregur.

Meðal þess sem boðið verður uppá á ráðstefnunni er námskeið um viðhald knattspyrnugrass (gervigras).  Það fer fram á laugardeginum og stendur frá kl. 9:00 til 12:00.  Kennari á námskeiðinu verður Ian Lacy.  Á námskeiðinu verður farið yfir allt sem lítur að viðhaldi þessara valla.  Ian Lacy kemur á vegum IOG sem stendur fyrir Institute of Groundsmanship, þar sem hann er Head of professional services.

Við hvetjum alla starfsmenn knattspyrnuvalla til að sækja þetta námskeið, ekki síst í ljósi þess að knattspyrnuiðkun á gervigrasi hefur aukist verulega á Íslandi.  Rétt viðhald hámarkar endingu og gæði þessara valla ekki síður en grasvalla auk þess sem það sparar félögunum peninga að hugsa vel um vellina þegar til lengri tíma er litið.

Skráningargjald er 2.500.- kr.  og innifalið í því er kvöldverðurinn að lokinni ráðstefnunni (matur er eingöngu fyrir félaga í SÍGÍ). Þeir sem hafa áhuga á að sækja námskeið Ian Lacys eru vinsamlegast beðnir að taka það fram við skráningu.

Skráning fer fram á johann@ksi.is og henni lýkur þriðjudaginn 9 mars.