Tveggja marka tap gegn Bandaríkjunum á Algarve
Stelpurnar í íslenska kvennalandsliðinu hófu í dag leik á Algarve Cup og voru mótherjarnir Bandaríkin, sem eru í efsta sæti styrkleikalista FIFA. Lokatölur urðu 2 - 0 Bandaríkjunum í vil eftir að staðan var markalaus í leikhléi.
Leikurinn var bráðfjörugur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn þar sem íslenska liðið var sterkari aðilinn. Mörk Bandaríkjanna komu á tveggja mínútna kafla í síðari hálfleik og var fyrra markið sjálfsmark. Tvær vítaspyrnur fóru í súginn hjá íslenska liðinu, hvor í sínum hálfleik. Fyrst varði Hope Solo frá Margréti Láru Viðarsdóttur og í uppbótartíma fór Berglind Björg Þorvaldsdóttir á punktinn en Solo varði glæsilega. Fylgst var með leiknum með textalýsingu og fer hún hér að neðan:
Ísland - Bandaríkin
Leikurinn er hafinn, völlurinn virðist í fínu ásigkomulagi þrátt fyrir að töluverða bleytu síðustu misseri á Alagarve. Það er hálfskýjað og hitinn um 17 gráður að sögn lækna.
Þær bandarísku byrja aðeins betur en fyrsta hornspyrnuna fá Íslendingar á 3. mínútu og er það nýliðinn, Dagný Brynjarsdóttir, sem að vinnur hana. Ekkert kemur upp úr henni heldur geysast mótherjarnir í sókn og eiga skot rétt framhjá.
Allt að gerast, á 12. mínútu er brotið á Margréti Láru innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Margrét tók vítið sjálf en bandaríski markvörðurinn varði glæsilega í horn. Úr hornspyrnunni, þeirri þriðju sem Íslendingar fá í leiknum, barst boltinn út til Söru Bjarka sem átti gott skot en markvörðurinn var enn til vandræða og varði vel. Lífleg byrjun á leiknum í meira lagi.
Fjörið heldur áfram, Margrét Lára var við það að sleppa ein gegn á 21. mínútu en varnarmenn Bandaríkjanna björguðu á síðustu stundu. Fimm mínútum síðar kom svo fyrsta hornið sem Ísland fékk á sig og upp úr því kom skalli að marki en hann fór rétt framhjá. Stuttu síðar var Hólmfríður komin í gegnum vörn Bandaríkjanna en var toguð niður við vítateigshorn. Brotlegi leikmaðurinn fékk að launum gult spjald en einhverjir Íslendingar vildu hafa annan lit á því spjaldi. Upp úr aukaspyrnunni varð ekkert en á 33. mínútu var Hólmfríður aftur á ferðinni og slapp í gegnum vörnina með þrjá varnarmenn á hælunum. Þeir náðu að trufla hana það mikið að skot Hólmfríðar fór vel yfir. Bandaríkin komust í ágætis færi mínútu síðar og áttu skalla yfir markið. Það eru liðnar 35 mínútur af leiknum og staðan enn markalaus í bráðfjörugum leik.
Kominn hálfleikur og staðan enn markalaus, íslenska liðið hefur verið sterkari aðilinn og átt margar góðar sóknir. Besta færið féll íslenska liðinu í skaut en bandaríski markvörðurinn varði góða spyrnu Margrétar Láru.
Síðari hálfleikur er hafinn og þær bandarísku byrja af nokkrum krafti, þær komst í gott færi eftir fjögurra mínútna leik en skutu í stöng. Nokkuð jafnræði var svo liðunum en á 60. mínútu komu tvö bandarísk mörk á tveimur mínútum. Fyrra markið var sjálfsmark, fyrirgjöf hrökk af leikmanni íslenska liðsins í markið og mínútu síðar komst Lauren Cheney ein innfyrir og skoraði af öryggi. Ákaflega slæmur tveggja mínútna kafli eftir prýðilegar 58 mínútur! Staðan því orðin:
Ísland - Bandaríkin 0 - 2
Þær bandarísku eru sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum en íslenska liðið reynir þó enn að sækja að markinu. Annar nýliði er kominn inn á völlinn, Berglind Björg Þorvaldsdóttir leysti Margréti Láru af hólmi á 61. mínútu.
Besta færi íslenska liðsins í síðar hálfleik kemur á 77. mínútu þegar að Hólmfríður kemst í gott færi eftir sendingu Guðnýjar Óðinsdóttur en boltinn fer naumlega framhjá. Hólmfríður svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar en gott skot hennar sleikir þverslánna að ofanverðu. Hólmfríður hefur verið áberandi í sóknarleik íslenska liðsins en hún mun leika í bandarísku atvinnumannadeildinni á þessu tímabili.
Annað víti forgörðum!! Nú varði Hope Solo frá Berglinid Björg, spyrnan var góð alveg út við stöng, en markvörðurinn varði vel. Það var Guðný Björk Óðinsdóttir sem að vann þessa vítaspyrnu. Hún stakk sér á milli varnarmanns og markmanns og var var brotið á Guðnýju. Vítaspyrnan kom í uppbótartíma.
Leik lokið með tveggja marka sigri Bandaríkjanna. Engu að síður prýðilegur leikur hjá íslenska liðinu.