• þri. 23. feb. 2010
  • Leyfiskerfi

Gögnin komin frá ÍA, Fjarðabyggð og Þór

ÍA, Fjarðabyggð og Þór
ia-fjardabyggd-thor

Leyfisstjórn getur nú staðfest móttöku fjárhagslegra leyfisgagna frá þremur félögum - ÍA, Fjarðabyggð og Þór.  Póststimpillinn hjá öllum þessum félögum sýnir sendingardaginn 22. febrúar og því teljast þau hafa skilað innan settra tímamarka. 

Pósturinn hefur ekki komið með gögnin frá ÍBV og gögn KA virðast ekki hafa verið í sömu sendingu frá Akureyri og gögn Þórsara, þannig að gögn þessara félaga berast væntanlega á miðvikudag.

Tvö félög, Fjölnir og Þróttur, skila gögnum síðar í vikunni og mega því búast við dagsektum samkvæmt greininni hér að neðan.

Fjárhagsgögnum fylgja fjölmargar staðfestingar, s.s. á því að engin vanskil séu við leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn, sem og við önnur knattspyrnufélög vegna félagaskipta.  Grunnskylda er þó að félög skili endurskoðuðum og staðfestum ársreikningi, með fullri áritun endurskoðanda.

Minnt er á neðangreint ákvæði í leyfisreglugerð.


b) Tímamörk ekki uppfyllt.

Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum.  Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er.  Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:

-  Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 1.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 30.000.

-  Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 3.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 60.000.

-  Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.

          Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.