Fjárhagsgögn ÍR komin í hús
ÍR-ingar hafa skilað fjárhagslegum fylgigögnum með umsókn sinni um þátttökuleyfi í 1. deild karla 2010 og þar með eru tvö félög í þeirri deild með staðfest skil. Skagamenn hafa reyndar upplýst leyfisstjórn um að þeir hafi póstsent sín leyfisgögn, eins og fyrr hefur verið greint frá, og er líklegt að fleiri félög nýti sér þann möguleika, þá sérstaklega félög utan höfuðborgarsvæðisins. Félög sem skila gögnum með pósti geta sett gögnin í póst í dag og teljast þau þá hafa skilað innan tímamarka, svo fremi sem póststimpillinn sýni 22. febrúar sem sendingardag.
Fjárhagsgögnum fylgja fjölmargar staðfestingar, s.s. á því að engin vanskil séu við leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn, sem og við önnur knattspyrnufélög vegna félagaskipta.
Minnt er á neðangreint ákvæði í leyfisreglugerð.
b) Tímamörk ekki uppfyllt.
Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum. Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er. Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:
- Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 1.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 30.000.
- Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 3.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 60.000.
- Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.