• fim. 11. feb. 2010
  • Fræðsla

Fyrsti súpufundur KSÍ fer fram í hádeginu fimmtudaginn 18. febrúar

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

KSÍ hefur ákveðið að fara af stað með fræðslufundi í hádeginu einu sinni í mánuði.  Fræðslufundirnir verða í formi 30 mínútna fyrirlesturs um ólík efni hverju sinni og svo svör við spurningum.  KSÍ mun jafnframt bjóða gestum upp á súpu og brauð á þessum fyrirlestrum og því upplagt að skella sér í heimsókn til KSÍ, hlýða á áhugavert erindi og fá sér hádegismat í leiðinni.   

Á fyrsta fræðslufundinum mun Guðjón Örn Helgason kynna niðurstöður úr meistaraprófsritgerð sinni af félagsvísindasviði við Háskóla Íslands sem ber nafnið „Atriði sem tengjast hollustu og tryggð knattspyrnumanna gagnvart félagi sínu“.  Niðurstöður ritgerðarinnar gáfu meðal annars til kynna að með því að skapa fjölskyldumenningu og/eða auka stuðning frá stjórn félags og áhorfendum er hægt að gera leikmenn hollari og tryggari gagnvart félagi sínu. 

Þessi fyrsti fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 18. febrúar klukkan 12.15 á 3. hæð í höfuðstöðvum KSÍ við Laugardalsvöll. 

Aðgangur er ókeypis og opinn öllum áhugasömum en þó þarf að skrá sig með því að senda tölvupóst á siggi@ksi.is og taka fram nafn, kennitölu og netfang.