Dæma á Copa der Sol mótinu á Marbella
Dómararnir Kristinn Jakobsson og Þóroddur Hjaltalín og aðstoðardómararnir Áskell Þór Gíslason, Frosti Viðar Gunnarsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson eru staddir í boði norska knattspyrnusambandsins á Marbella á Spáni. Dæma þeir þar leiki á Copa de Sol mótinu en þar eigast við 8 félög frá fimm löndum.
Þóroddur Hjaltalín, sem varð FIFA dómari um áramótin ásamt Þorvaldi Árnasyni, dæmdi í gær hörkuleik milli Elfsborgar og Rósenborgar sem endaði með jafntefli, 1 - 1.
Þóroddur komst vel frá leiknum og óhætt að segja að framhaldið lofi góðu. Aðstoðardómarar hans í leiknum voru Gunnar Sverrir Gunnarsson og Áskell Þór Gíslason.
Íslensku dómararnir verða svo aftur á ferðinni á morgun og á föstudaginn. Á morgun, fimmtudag, mun Kristinn dæma leik Rosenborg og Molde. Honum til aðstoðar verða þeir Frosti Viðar Gunnarsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson. Á föstudaginn dæmir svo Þóroddur Hjaltalín leik Odense og FC Köbenhavn. Honum til aðstoðar verða þeir Áskell Þór Gíslason og Frosti Viðar Gunnarsson
Mjög vel er staðið að þeim málum sem lúta að dómurum mótsins. Allir leikir eru teknir upp og farið yfir þá með eftirlitsmönnum daginn eftir leik og þeir krufnir og er ljóst er hópurinn kemur heim reynslunni ríkari.