• fim. 28. jan. 2010
  • Landslið

Leikið við Mexíkó í Charlotte 24. mars

Byrjunarlið Íslands gegn Suður Afríku í október 2009
Byrjunarlid-Sudur-Afrika-oktober-2009

Knattspyrnusambönd Íslands og Mexíkó hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik, miðvikudaginn 24. mars næstkomandi.  Leikið verður í Charlotte í Norður Karólínu í Bandaríkjunum.

Ísland og Mexíkó hafa einu sinni mæst áður í landsleik en það var vináttulandsleikur sem fór fram í San Fransisco árið 2003.  Lauk þeim leik með markalausu jafntefli.  Mexíkó leikur í úrslitakeppni HM 2010 í Suður Afríku og er þar í riðli með gestgjöfunum, Uruguay og Frakklandi.  Þetta er fimmta úrslitakeppnin í röð þar sem þeir eru á meðal þátttakenda en síðast voru þeir ekki með árið 1990.  Mexíkó er sem stendur í 17. sæti styrkleikalista FIFA.

Leikurinn verður þriðji vináttulandsleikur Íslands í mars en leikið verður við Kýpur 3. mars, Færeyja 21. mars og svo við Mexíkó 24. mars.  Leikurinn við Mexíkó er, líkt og leikurinn við Færeyjar, ekki á alþjóðlegum leikdegi og því verða það leikmenn sem leika hér á landi sem verða uppistaðan í landsliðshóp Íslands.

Landsleikurinn við Mexíkó fer fram á Bank of America vellinum, heimavelli Carolina Panthers sem leika í bandarísku NFL deildinni og tekur völlurinn rúmlega 73.000 manns í sæti  Algengt er að Mexíkóar leiki vináttulandsleiki í hinum ýmsu borgum Bandaríkjanna enda eiga þeir geysistóran stuðningshóp þar í landi.  Þetta er þó í fyrsta skiptið sem þeir leika í Charlotte og í fyrsta skipti sem að landsleikur karla er leikinn á þessum velli sem vígður var 1996.  Íslenskt landslið hefur þó leikið áður landsleik í knattspyrnu á þessum velli.  Það var íslenska kvennalandsliðið sem lék þá vináttulandsleik við Bandaríkin árið 2000.  Lauk þeim leik með markalausu jafntefli en þar átti Þóra Helgadóttir ótrúlegan leik í markinu.