Reynismenn undirgangast leyfiskerfið fyrir 2010
Reynir Sandgerði hefur óskað eftir því að félagið undirgangist leyfiskerfi KSÍ fyrir keppnistímabilið 2010 og hefur leyfisstjórn fallist á það með mikilli ánægju. Þetta þýðir að Reynir, sem leikur í 2. deild 2010, mun senda inn leyfisgögn með sama hætti og félögin í Pepsi-deild og 1. deild.
Leyfisstjórn mun fara yfir gögnin, gera viðeigandi athugasemdir og gera tillögur um úrbætur í samráði við félagið. Í lok leyfisferlisins verður svo tilkynnt sérstaklega niðurstaða í mati á leyfisumsókn Reynis, en hafa ber í huga að félagið verður ekki látið sæta viðurlögum uppfylli það ekki kröfur leyfiskerfisins, þar sem leyfiskerfið nær í raun ekki til 2. deildar. Reynismenn ætla sér stóra hluti og vilja vera tilbúnir þegar til þess kemur að félagið leikur aftur í 1. deild.
Reynismenn hafa undirgengist leyfiskerfið einu sinni áður, en það var árið 2007, þegar þeir léku í 1. deild. Þar á bæ eru menn metnaðarfullir og gera sér grein fyrir þeim styrkleika og því aðhaldi sem leyfiskerfið getur fært félaginu og því hafa þeir ákveðið að taka þátt í leyfisferlinu fyrir 2010.
Njarðvíkingar tóku sömu ákvörðun þegar þeir féllu úr 1. deild í 2. deild keppnistímabilið 2008. Þeir eru aftur komnir upp í 1. deild. Óski önnur félög sem leika utan efstu tveggja deildanna eftir því að undirgangast leyfiskerfi KSÍ mun leyfisstjórn taka mjög vel í þá beiðni.
Félög sem hafa undirgengist leyfiskerfið og falla síðan um deild þurfa að hafa neðangreint úr leyfisreglugerð KSÍ í huga:
14.2 Félag, sem kemur í fyrsta skipti upp í 1. deild eftir að leyfiskerfi hefur verið komið á í deildinni, fær eins árs aðlögunartíma að leyfiskerfinu. Ef 5 ár eða meir eru liðin frá því að félagið kom síðast upp í 1. deild, getur það einnig sótt um sambærilegan aðlögunartíma.
Þetta þýðir að ef Reynismenn komast aftur upp í 1. deild innan 5 ára frá því að þeir féllu, þá fá þeir ekki þennan árs aðlögunartíma. Þá er eins gott að vera tilbúinn í slaginn og önnur félög þyrftu að hafa þetta í huga.