Hermann leikjahæsti Norðurlandabúinn í ensku úrvalsdeildinni
Landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson var í eldlínunni í gærkvöldi þegar hann lék með liði sínu Portsmouth gegn Chelsea í ensku úrvaldsdeildinni. Leikurinn var 319. leikur Hermanns í þeirri deild og er hann því orðinn leikjahæsti Norðurlandabúinn í ensku úrvalsdeildinni. Fór hann þar með upp fyrir hinn finnska Sami Hyypia. Í þessum leikjum hefur Hermann skorað 14 mörk, fengið 46 áminningar og 2 rauð spjöld.
Hermann hefur leikið með Portsmouth, Charlton, Ipswich, Wimbledon (nú MK Dons) og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni. Einnig hefur Hermann leikið með Brentford í Englandi. Hermann er í 56. sæti fyrir leikjahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi en liðsfélagi Hermanns hjá Portsmouth, markvörðurinn David James, er leikjahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 560 leiki.