Knattspyrnusagan skráð
Knattspyrnusamband Íslands kemur að skráningu knattspyrnusögunnar á Íslandi með margvíslegum hætti og á næstu vikum munu koma út tvær bækur sem vert er að vekja athygli á fyrir knattspyrnuáhugamenn og aðra þá sem áhuga hafa á knattspyrnusögunni.
Í ár var leikið í bikarkeppni karla í 50.skiptið og af því tilefni hefur blaðamaðurinn, Skapti Hallgrímsson, ritað sögu bikarkeppninnar. Í þessari veglegu bók er fjallað um bikarkeppni karla og kvenna frá upphafi. Skapti hefur aflað sér heimilda víða og margar skemmtilegar sögur líta dagsins ljós, auk þess sem fjölmargar myndir prýða bókina. Fjallað er sérstaklega um bikarkeppnina í ár í máli og myndum og leikirnir skoðaðir frá ýmsum hliðum. Bókin verður gefin út í lok nóvember og með henni fylgir jafnframt mynddiskur með efni úr bikarkeppninni í áranna rás. Er hér um að ræða virkilega eigulega og skemmtilega heimild um sögu bikarkeppninnar sem knattspyrnuáhugamenn mega ekki láta framhjá sér fara.
Íslensk knattspyrna 2009 eftir Víði Sigurðsson kemur út að venju og er þetta 29. bókin í þessari ómissandi ritröð. Bækurnar hans Víðis eru ómetanlegar heimildir um knattspyrnuna og áralöng reynsla Víðis sem blaðamaður skilar sér í skemmtilegum og nákvæmum efnistökum. Víðir skrásetur þarna sögu íslenskrar knattspyrnu jafnóðum og hún gerist enda eru þeir fjölmargir sem að bíða í ofvæni eftir nýrri bók hvert ár. Hægt er svo að panta eldri bækur hjá útgefanda fyrir þá sem vantar einhver eintök inn í safnið sitt.
Þessar fyrrnefndu bækur koma út nú á næstu dögum en Knattspyrnusambandið mun koma að fleiri útgáfum á næstu árum. Árið 2011 fer fram hundraðasta Íslandsmótið í knattspyrnu en fyrst var leikið árið 1912. Af því tilefni hefur Sigmundur Ó Steinarsson blaðamaður tekið að sér að skrifa sögu Íslandsmótanna og mun bókin koma út síðla árs 2011. Þá mun árið 2012 koma út bók í tilefni af 400 A landsleikjum karla í knattspyrnu en fyrsti landsleikurinn fór fram árið 1946 og spannar bókin því 66 ára landsleikjasögu.
Sögur úr fortíð og nútíð hafa ævinlega yljað unnendum knattspyrnunnar hvar sem er í heiminum og knattspyrnusagan er órofa hluti af því sem við erum að fást við í núinu. Margt hefur farið forgörðum á liðnum áratugum, en með þessari bókaútgáfu vill Knattspyrnusambandið leggja sitt af mörkum til að varðveita söguna.
Ágúst Ingi Jónsson
formaður sögunefndar KSÍ