Stelpurnar fá háttvísiverðlaun fyrir EM í Finnlandi
Þessa dagana fer fram í Nyon í Sviss ráðstefna fyrir landsliðsþjálfara A landsliða kvenna í Evrópu og fræðslustjóra aðildarlanda UEFA. Á ráðstefnunni er farið yfir gang mála í úrslitakeppni EM 2009 í Finnlandi frá mörgum hliðum.
Við hátíðarkvöldverð annað kvöld mun svo Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, taka við háttvísisverðlaunum UEFA fyrir hönd kvennalandsliðsins og mun Karen Espelund varaformaður kvennanefndar UEFA, afhenda verðlaunin.
Ýmis atriði eru höfð til hliðsjónar þegar háttvísiverðlaun UEFA eru annars vegar þeirra á meðal: spjöld, framkoma leikmanna og aðstandenda, jákvæður leikur og framkoma áhorfenda svo eitthvað sé nefnt.