• lau. 14. nóv. 2009
  • Landslið

Jafntefli í vináttulandsleik við Lúxemborg

Byrjunarlið Íslands í vináttulandsleik gegn Lúxemborg í nóvember 2009
Luxemborg

Íslendingar gerðu jafntefli í kvöld við Lúxemborg en leikið var á Josy Barthel vellinum í Lúxemborg.  Lokatölur urðu 1 -1 eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.  Það var Garðar Jóhannsson sem skoraði mark Íslendinga í leiknum.

Það er óhætt að segja að fyrri hálfleikur hafi verið í rólegri kantinum, hvorugt liðið tók mikla áhættu í sóknarleik sínum og engin opin  marktækifæri létu á sér kræla.  Síðari hálfleikur var mun opnari og var íslenska liðið ágengara upp við mark heimamanna.  Það bar svo árangur á 63. mínútu þegar Garðar Jóhannsson skallaði inn af harðfylgi aukaspyrnu Emils Hallfreðssonar.  Varnarmaður heimamanna hékk í Garðari en hann lét það ekki á sig fá og kom boltanum í netið.

Heimamenn jöfnuðu svo metin á 75. mínútu og þrátt fyrir ágætar tilraunir tókst Íslendingum ekki að tryggja sér sigur í leiknum.  Þetta er í þriðja sinn sem þjóðirnar gera jafntefli í sjö viðureignum en Íslendingar hafa unnið fjórum sinnum.