Öruggur sigur í San Marínó hjá U21 karla
Strákarnir í U21landsliðinu unnu í kvöld öruggan sigur á jafnöldrum sínum frá San Marínó. Lokatölur urðu 0 - 6 eftir að staðan í leikhléi hafði verið 0 - 4. Íslenska liðið hefur nú hlotið 12 stig eftir 5 leiki og eru með jafnmörg stig og Tékkar sem hafa leikið einum leik minna.
Íslenska liðið gerði út um leikinn á fyrstu 18 mínútunum því þá höfðu þrjú mörk litið dagsins ljós. Kolbeinn Sigþórsson skoraði fyrsta markið á 8. mínútu og Gylfi Þór Sigurðsson bætti við öðru marki eftir 15 mínútna leik. Fyrirliðinn Bjarni Þór Viðarsson skoraði svo úr vítaspyrnu þremur mínútum síðar. Gylfi Þór var svo aftur á ferðinni á 31. mínútu og Íslendingar leiddu því með fjórum mörkum eftir fyrri hálfleikinn.
Rólegra var yfir seinni hálfleiknum en íslenska liðið hafði góða stjórn á leiknum. Framherjinn Alfreð Finnbogason kom inná á 57. mínútu leiksins og þremur mínútum síðar hafði hann skorað fimmta mark Íslands. Hann var svo aftur á ferðinni á 82. mínútu og öruggur sigur Íslands því í höfn.
Annar leikur fór fram í kvöld í sama riðli en Norður Írar og Þjóðverjar gerðu jafntefli með einu marki gegn einu. Þjóðverjar komust yfir á útivelli á 89. mínútu leiksins en heimamenn jöfnuðu metin þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.