• fös. 13. nóv. 2009
  • Landslið

Kvennalandsliðið fær viðurkenningu Jafnréttisráðs

Byrjunarlið Íslands gegn Eistlandi í undankeppni HM 17. september 2009
Ísland-Eistland

Í gær var veitti Jafnréttisráð kvennalandsliði Íslands viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir árið 2009.  Það var Katrín Jónsdóttir, fyrirliði, sem tók við viðurkenningunni úr hendi Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra fyrir hönd kvennalandsliðsins.

Í tilkynningu frá Jafnréttisráði kemur fram að meginröksemd fyrir þessari ákvörðun ráðsins er það fordæmisgildi sem starf og árangur kvennalandsliðsins hefur og er stúlkum mikil hvatning og fyrirmynd.

Kvennalandsliðið í fótbolta hefur sýnt fram á, með eftirminnilegum hætti, að með elju, áhuga og aga er hægt að yfirstíga hindranir og sækja fram til sigurs. Um það ber frábær árangur þeirra, þegar þær komust í 12 liða úrslit í Evrópukeppni kvenna í fótbolta árið 2009, vitni.
Kvennalandsliðið sem nú hlýtur viðurkenningu Jafnréttisráðs er fulltrúi þeirra fjölmörgu kvenna sem lagt hafa hönd á plóginn undanfarin ár og áratugi, sótt á brattann og unnið ýmsa sigra.

Jafnréttisráð vill með þessari viðurkenningu samfagna kvennalandsliðinu í fótbolta og vonar að hún verði því hvatning til frekari dáða og verði þannig stelpum og ungum stúlkum fyrirmynd sem hvetji þær einnig til að sækja fram á öllum sviðum þjóðlífsins.