Eins marks tap í Teheran
Íslenska karlalandsliðið beið lægri hlut gegn Íran í dag í vináttulandsleik sem leikinn var í Teheran. Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir heimamenn eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.
Leikurinn fór rólega af stað en heimamenn voru heldur hættulegri í fyrri hálfleiknum. Besta færi hálfleiksins fékk hinsvegar Ólafur Ingi Skúlason en skot hans, eftir sendingu frá Heiðari Helgusyni, fór framhjá markinu. Sigurmark leiksins kom svo eftir um 10 mínútna leik í síðari hálfleik og skoruðu heimamenn það eftir snögga sókn. Íslenska liðinu tókst ekki að jafna metin en Heiðar Helguson og Garðar Jóhannsson voru nálægt því í síðari hálfleiknum. Heimamenn fengu líka sín tækifæri og besta færi þeirra var þrumuskot er hafnaði í þverslá íslenska marksins.
Lokatölur því 1 - 0 fyrir heimamenn en frá Íran heldur íslenski hópurinn til Lúxemborg en þar bætast nokkrir leikmenn við hópinn en leikinn verður vináttulandsleikur gegn heimamönnum næstkomandi laugardag.