• þri. 27. okt. 2009
  • Landslið

Byrjunarliðið er mætir Norður Írum í Belfast - Bein textalýsing

Margrét Lára Viðarsdóttir skorar úr vítaspyrnu í leik gegn Eistlandi
Ísland-Eistland1

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt er mætir Norður Írum í undankeppni fyrir HM 2011.  Leikurinn hefst kl. 19:30 að íslenskum tíma og fer fram á The Oval í Belfast.

Bein  textalýsing verður frá leiknum hér á síðunni en leikurinn hefst kl 19:30.

Liðið æfði á keppnisvellinum í kvöld við frekar erfiðar aðstæður, mikil rigning hefur verið í Belfast og völlurinn því erfiður yfirferðar.  Allir leikmenn í hópnum voru með á æfingunni, þar á meðal Margrét Lára Viðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir og verða þær báðar í byrjunarliðinu gegn Norður Írum.

Markvörður: Þóra Helgadóttir

Hægri bakvörður: Sif Atladóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Erna Björk Sigurðardóttir

Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir

Sóknartengiliður: Dóra María Lárusdóttir

Hægri kantur: Rakel Hönnudóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Bein textalýsing

Veðrið er gott í Belfast þegar leikurinn er við það að hefjast og allir leikmenn hópsins tilbúnir í slaginn.  Völlurinn er þó blautur eftir miklar rigningar undanfarið en ekkert hefur rignt í dag.

Íslenska liðið sækir meira í byrjun leiks en markalaust er eftir 25 mínútna leik.  Besta færið kom eftir 15 mínútur þegar að Sara Björk skaut rétt framhjá eftir undirbúning frá Hólmfríði.

Sóknirnar að verða þyngri hjá íslenska liðinu.  Margrét Lára átti fínan skalla að marki sem markvörður heimastúlkna gerði vel í að verja og stuttu síðar átti Katrín fyriliði skalla eftir hornspyrnu rétt framhjá.  Markalaust eftir hálftímaleik.

Fyrr í kvöld unnu Frakkar sigur á Eistlandi í sama riðli en leikið var í Frakklandi.  Lokatölur urðu 12 - 0 fyrir Frakka eða sömu úrslit og urðu á Laugardalsvellinum þegar Ísland mætti Eistlandi.

Portúgalski dómarinn hefur flautað til leikhlés og staðan markalaus.  Íslenska liðið hefur verið sterkara í fyrri hálfleiknum en heimastúlkur sóttu í sig veðrið á síðustu mínútum leiksins.  Þær fengu sitt besta færi þegar um 7 mínútur voru eftir af hálfleiknum en þá komst sóknarmaður þeirra ein gegn Þóru í markinu eftir varnarmistök.  Sóknarmaður þeirra rann hinsvegar til og ekkert varð úr færinu.

Athygliverð úrslit úr undankeppninni í kvöld má nefna að Búlgaría og Danmörk gerðu markalaust jafntefli en Danir eru í 9. sæti FIFA listans en Búlgaría í 44. sæti.  Noregur vann nauman sigur á Slóvakíu á heimavelli með einu marki gegn engu en markið var sjálfsmark gestanna.

Seinni hálfleikur er byrjaður og nú er bara að vona eftir íslensku marki.  Engin breyting hefur verð gerð á íslenska liðinu fyrir síðari hálfleikinn.

Heimastúlkur koma ákveðnar í síðari hálfleikinn og sækja meira en þær gerðu í þeim fyrri.

Það eru 60 mínútur liðnar af leiknum og ekki hefur mikið gengið á í síðari hálfleiknum.  Íslensku stelpurnar hafa ekki náð sömu tökum á seinni hálfleiknum og í þeim fyrri og heimastúlkur hafa fengið aukið sjálfstraust eftir því sem liðið hefur á leikinn.  Enn er þó nóg eftir!

Okkar stelpur að ná yfirhöndinni aftur í leiknum.  Fyrsta breytingin hefur verið gerð, Katrín Ómarsdóttir er komin inn fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur.  Hólmfríður var þarna að leika sinn 50. landsleik.  Markalaust ennþá þegar 20 mínútur eru eftir af leiknum.

Nú eru aðeins 10 mínútur eftir og farið að styttast í annan endann.  Íslenska liðið hefur náð yfirhöndinni en nær ekki að skapa sér færi.

0 - 1  MARK!  Katrín Ómarsdóttir

Markið kemur nánast upp úr engu, fyrirgjöf frá hægri og þar er Katrín Ómarsdóttir mætt og skalla boltann í netið.  Heimastúlkur voru farnar að tefja svo þetta mark er gríðarlega dýrmætt.

Margrét Lára á gott skot að marki að markvörðurinn ver glæsilega.  Markvörður Norður Íra hefur átt mjög góðan leik hér í kvöld.

Nú eru aðeins 2 mínútur eftir af venjulegum leiktíma og Norður Írar leggja nú allt í sölurnar.

Leik lokið, dýrmætur sigur í höfn en erfiður var hann.  Heimastúlkur börðust af krafti en sigurinn sanngjarn þó svo að íslenska liðið hafi ekki náð sér almennilega á strik, sérstaklega ekki í síðari hálfleiknum.