Tveggja marka tap í Frakklandi
Stelpurnar okkar í A-landsliði kvenna biðu á laugardag lægri hlut gegn Frökkum í undankeppni HM 2011. Frakkar unnu tveggja marka sigur í leiknum, sem fram fór á Stede Gerland-leikvanginum í Lyon. Franska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og greinilegt að þjálfarinn Bruno Bini, sem er orðinn íslenskum knattspyrnuáhugamönnum að góðu kunnur eftir fjölmargar viðureignir þessara tveggja liða á síðustu árum, er með feykisterkt lið í höndunum.
Eitt mark í hvorum hálfleik tryggði franskan sigur og þar með hafa Frakkar jafnað stigafjölda Íslenska liðsins, auk þess sem Frakkar eiga leik til góða.
Næsti leikur íslenska liðsins er útileikur á miðvikudag gegn Norður Írum. Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir stelpurnar okkar og hefur stefnan verið tekin á sigur. Norður-Írar unnu eins marks útisigur gegn Króatíu um helgina og gera sér vonir um góð úrslit gegn Íslandi.