Kristinn dæmir í Ísrael
Kristinn Jakobsson dæmir á fimmtudaginn leik Hapoel Tel Aviv og Rapid Vín í Evrópudeild UEFA en leikið verður í Tel Aviv. Eins og áður hefur komið fram hefur UEFA verið með verkefni þar sem fimm dómarar starfa við leiki í Evrópudeildinni ásamt varadómara. Kristinn verður því í góðum félagsskap því fimm íslenskir dómarar verða með honum að störfum.
Sigurður Óli Þorleifsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson verða aðstoðardómarar og Jóhannes Valgeirsson verður varadómari. Í hlutverki aukaaðstoðardómara verða svo þeir Magnús Þórisson og Þorvaldur Árnason.
Baráttan er hörð í þessum C riðli Evrópudeildarinnar en Rapid Vín hefur byrjað vel og er með fjögur stig eftir tvo leiki. Hamborg og Hapoel eru svo með þrjú stig en neðst er skoska liðið Celtic með eitt stig.
Þá mun Ingi Jónsson dómaraeftirlitsmaður einnig verða við störf á fimmtudaginn í Evrópudeild UEFA þegar hann verður í eftirliti á leik Sparta Prag frá Tékklandi og CFR 1907 Cluj frá Rúmeníu.