Ísland upp um níu sæti á styrkleikalista karla
Íslenska karlalandsliðið fer upp um níu sæti á nýjum styrkleikalista FIFA er birtur var í dag. Ísland er nú í 87. sæti listans en Brasilíumenn tróna á toppnum en Spánverjar koma þar skammt á eftir.
Næstu mótherjar Íslendinga, Íran, eru í 62. sæti listans og fara niður um tvö sæti. Lúxemborg er svo í 133. sæti og detta niður um sautján sæti. Íslendingar mæta Íran í vináttulandsleik 10. nóvember og Lúxemborg 14. nóvember. Suður Afríkumenn, sem Íslendingar lögðu á dögunum í vináttulandsleik, eru tveimur sætum fyrir ofan Ísland í 85. sæti og fara niður um tólf sæti.
Hástökkvarar listans að þessu sinni eru frændur okkar Færeyingar en þeir fara upp um heil 41 sæti á listanum og eru nú í 122. sæti.