Hundraðasti sigur A landsliðs karla
Þegar Suður Afríkumenn voru lagðir á Laugardalsvelli í gærkvöldi var það hundraðasti sigur A landsliðs karla. Landsleikirnir eru orðnir 376 talsins og hafa sigrarnir verið 100, jafnteflin 68 og tapleikirnir 208 talsins.
Fyrsti landsleikurinn var leikinn á Melavelli árið 1946 þegar að Danir lögðu okkur að velli með þremur mörkum gegn engu. Fyrsti sigurinn kom tveimur árum síðar, einnig á Melavelli, en þá voru Finnar lagðir með tveimur mörkum gegn engu þar sem Ríkharður Jónsson skoraði bæði mörkin.
Jafntefli í A landsleik karla kom hinsvegar ekki fyrr en árið 1959 eða þrettán árum eftir fyrsta landsleikinn. Í þessum 25. landsleik Ísland varð jafntefli gegn Dönum á Idrætsparken. Lokatölur þar urðu 1 – 1 og var það Sveinn Teitsson sem skoraði mark Íslands í þeim leik en Danir jöfnuðu þegar að átta mínútur lifðu leiks.
Það var svo 61 ári eftir fyrsta landsliðsigurinn að hundraðasti sigurinn leit dagsins ljós þegar Suður Afríkumenn voru lagðir með marki frá Veigari Páli Gunnarssyni.
Stærsti sigur Íslands var gegn Færeyjum á Keflavíkurvelli árið 1985 en þar urðu lokatölur, 9 -0. Stærsta tap Íslands leit hinsvegar dagsins ljós gegn Dönum á Idrætsparken árið 1967 í sextán marka leik.